153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

Stytting vinnuvikunnar.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér í dag og vil hefja mál mitt á því að vitna, með leyfi forseta, í Röggu nagla sem segir:

„Dugnaðarkvíði er samfélagsmein sem er þögli skaðvaldur samtímans.

Að vera lúsiðin hverja sekúndu eins og hermaur í maurabúi þykir vera hin mesta hetjudáð en er í raun sinubruni sem brennir okkur út ansi hratt.“

Það hefur nefnilega lengi loðað við Íslendinga að vinna sér til húðar og engu líkara en að þrælsóttinn sé samgróinn ósjálfráða taugakerfinu. Það er líka ríkt í menningunni að líta á mikla vinnu sem dyggð, sem hún er auðvitað upp að einhverju marki, en fæstu fólki er það til bóta að vinna af slíku kappi, alla vega til langs tíma. Það var ekki síst vegna þessa sem það var áskorun að gera breytingar á vinnutíma fólks. Stytting vinnuvikunnar var klárlega eitt af stóru framfaraskrefum lífskjarasamninganna og íslensks samfélags á síðasta kjörtímabili og nú hafa ákvæði þess efnis náð inn í flesta kjarasamninga. Þetta stóra baráttumál vinnandi fólks gerir fólki betur kleift að samræma vinnu og einkalíf. Það hefur í för með sér ýmis jákvæð áhrif enda þráir flest fólk að verja meiri tíma til að sinna sínum hugðarefnum, fjölskyldunni og sjálfum sér.

Úttekt KPMG, sem hér hefur verið rædd, á fyrirkomulaginu sýnir almenna ánægju með þessa breytingu, hjá starfsfólki alla vega. Betri vinnutími og sveigjanleiki auka starfsánægju og bæta vinnustaðamenningu. Þetta liggur kannski í augum uppi svona þegar þetta er komið til framkvæmda, að ánægt starfsfólk skilar betri vinnu. Það ætti því að vera kappsmál hins opinbera að vinna að þessum breytingum í samstarfi við þær opinberu stofnanir þar sem erfiðar hefur gengið að innleiða ferlið en skýrslan sýnir að 77% stofnana ríkisins hafa innleitt hámarksstyttingu vinnuvikunnar. Það er því tilefni til að styðja við þær stofnanir sem ekki hafa stigið þetta skref til fulls og um leið takast á við þær áskoranir sem nú þegar liggja fyrir. Það styður líka enn frekar við þessar breytingar á vinnumarkaði að þær hafa ekki knésett ríkissjóð eins og einhverjir vildu meina áður en til þess kom að stytta vinnuvikuna. Þess vegna eigum við að halda áfram á þessari braut, sjá hvað við getum gert betur og standa með baráttu vinnandi fólks fyrir bættum vinnutíma.