153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

Stytting vinnuvikunnar.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið góð umræða um mjög mikilvægt mál. Ég get tekið undir með þeim sem hafa lagt hér orð í belg um mikilvægi þess að við þróum vinnumarkaðinn og mætum væntingum fólks um jafnvægi milli fjölskyldulífs og vinnu og þróum opinbera vinnustaði í takt við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Það hlýtur að vera markmið okkar að styðja við vinnustaði með þeim hætti að við náum á sama tíma aukinni framleiðni og betra vinnuumhverfi.

Það var hugmyndin í upphafi, þegar tilraunaverkefnið var sett af stað í samvinnu við BSRB, að láta á það reyna með ákveðnum dæmum hvort hægt væri að draga úr vinnuframlagi í hverri viku, sem sagt fækka vinnustundunum, án þess að það kæmi niður á afköstum. Það voru jákvæðar vísbendingar í því tilraunaverkefni sem voru forsenda fyrir því að ákveðið var að stíga þetta skref sem er til endurmats nú á árinu 2024.

Þegar spurt er hvort verkefnið hafi heppnast eða hvernig gengið hafi heilt yfir þá held ég að það sé alveg ljóst af umræðunni hér í dag að það hefur margt gengið vel þessi fyrstu ár, öðru er ábótavant, allt eins og við mátti búast. Stærsta áskorunin er í mínum huga ótvírætt skortur á betri gögnum og það vantar sterkari verkstjórn til að fylgja eftir árangri af verkefninu. Ég hef því skipað hóp fulltrúa allra ráðuneyta sem bera hver um sig ábyrgð á umbótum í þessum efnum og við höfum rætt málið í ríkisstjórn og ætlum að fylgja því fast eftir að árangur verði af þessari vinnu ráðuneytanna. Líkt og endurspeglast í nýrri fjármálaáætlun mun sterkari umgjörð, með sameiningu stofnana, stafvæðingu, aukinni samnýtingu þekkingar starfsfólks (Forseti hringir.) og nútímalegra vinnuumhverfi, skapa forsendur til að ná aukinni hagræðingu á sama tíma og framleiðni vex. Það er því til mjög mikils að vinna.