Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu en auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Inga Sæland, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Aðdragandi þessarar tillögu er sá að hér á Alþingi hefur, frá því að innrás Rússa hófst, ríkt mikil samstaða og stuðningur við Úkraínu. Sá stuðningur einskorðast ekki við Alþingi heldur má segja að enn fremur hafi verið mjög ríkur stuðningur meðal almennings í landinu við Úkraínu. Það er auðvitað merkilegt að hér hefur verið algjörlega þverpólitísk samstaða um þennan stuðning og formenn flokkanna leggja áherslu á að undirstrika þá samstöðu með þessari tillögu.

Sjúkrahúsið sem hér um ræðir skiptir sköpum til að sinna bæði særðum hermönnum og almenningi. Það er hægt að starfrækja svona sjúkrahús sjálfstætt og án tengingar við fyrirliggjandi innviði. Með þessari tillögu er brugðist við ósk úkraínskra stjórnvalda, en þau hafa með beinum hætti á undanförnum vikum komið á framfæri brýnni þörf fyrir slíkt sjúkrahús og óskað eftir stuðningi íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Raunar var það svo að í heimsókn minni og hæstv. utanríkisráðherra til Kyiv lagði forseti Úkraínu, Vólódímír Zelenskí, sérstaka áherslu á slíkt sjúkrahús og ítrekaði þá ósk sína á fundi sem ég átti með honum í Helsinki fyrr í þessum mánuði.

Þegar hafa þrjú sjúkrahús af þessari gerð verið send til landsins fyrir tilstilli Eistlands og Þýskalands, og svo Noregs og Hollands, en fram hefur komið að þörf sé á a.m.k. þremur til viðbótar. Framleiðslutími á sjúkrahúsi af þessu tagi er um hálft ár og áætlaður kostnaður nemur u.þ.b. 7,8 milljónum evra, eða um 1,2 milljörðum kr.

Heildarstuðningur Íslands við Úkraínu á árunum 2022 og 2023 nemur til dagsins í dag 4,7 milljörðum kr., þar af 2,2 milljörðum í fyrra, og stuðningur okkar hefur m.a. falist í framlögum til mannúðarstarfs og neyðarviðbragðs á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana. Við höfum tekið á móti fólki á flótta frá Úkraínu, u.þ.b. 3.000 manns á flótta frá Úkraínu hafa fengið hér vernd frá upphafi innrásarinnar, og þá hefur Ísland einnig veitt aðstoð við varnartengd verkefni, t.d. með því að senda liðssveitum landsins mikið magn af vetrarbúnaði. Við höfum haft forgöngu um skipulagningu þjálfunar fyrir Úkraínu í sprengjuleit og -eyðingu sem er samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litháens. Sú þjálfun hófst í mars á þessu ári og í undirbúningi er flutningur á olíubílum fyrir úkraínska herinn, ásamt þjálfun í skyndihjálp fyrir úkraínska hermenn sem er verið að þjálfa í Bretlandi. Þessi stuðningur nemur um 1,5 milljörðum kr. Þá hafa framlög verið veitt til stuðnings við Atlantshafsbandalagið og í sérstakan stuðningssjóð fyrir Úkraínu sem bresk stjórnvöld settu á laggirnar.

Framlög okkar í mannúðar- og efnahagsaðstoð hafa að mestu farið í gegnum alþjóðastofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankann. Hvað efnahagsaðstoð varðar nemur stuðningur Íslands í gegnum sjóði Alþjóðabankans ríflega 1,4 milljörðum kr. Ísland hefur veitt tæpa 1,4 milljarða til mannúðarstarfs og neyðarviðbragðs á vegum Sameinuðu þjóðanna, ýmissa undirstofnana þeirra, alþjóða Rauða krossins og Rauða krossins á Íslandi en við höfum líka tekið þátt í sértækari verkefnum, t.d. hafa neyðarvistir í formi niðursoðinnar þorsklifrar verið sendar til Kharkív-héraðs og styrkir veittir til stoðtækjaverkefnis Össurar. Við höfum einbeitt okkur að því að aðstoða þar sem við höfum sérþekkingu og getum mest orðið að gagni, m.a. með því að styðja við uppbyggingu á orkukerfinu í Úkraínu. Þar höfum við sett 350 millj. kr. í orkusjóð fyrir Úkraínu og 70 milljónir í verkefni þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna um styrkingu á orkuinnviðum þeirra. Þá hafa íslensk dreifi- og veitufyrirtæki í samstarfi við utanríkisráðuneytið sent nauðsynlegan raforkubúnað af ýmsu tagi til Úkraínu til að bregðast við rafmagnsleysi vegna árása rússneska hersins á orkuinnviði landsins. Sá búnaður hefur kostað u.þ.b. 60 millj. kr. og þannig styðjum við uppbyggingu raforkukerfisins að nýju.

Með þessari tillögu aukum við enn stuðning Íslands frá því sem þegar hefur verið kynnt. Þörfin er rík og staða okkar er sú að við getum gert meira og það gerum við með því að festa kaup á þessu sjúkrahúsi á næstu mánuðum. Ég vil þó undirstrika það að okkar stuðningur hefur ekki aðeins verið efnahagslegur. Hann hefur líka verið pólitískur og við höfum nýtt okkar rödd á alþjóðavettvangi til að styðja við málstað Úkraínu. Ekki þarf að líta lengra aftur en til síðustu viku þar sem sjá má dæmi um þá áherslu sem Ísland lagði á málefni Úkraínu í formennskutíð sinni í Evrópuráðinu og skilaði þeim árangri að við náðum samkomulagi um stofnun tjónaskrár. Þá er Ísland í kjarnahópi ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem styðja sérstakan dómstól vegna glæpa gegn friði og Ísland hefur veitt viðbótarframlag árin 2022 og 2023 til Alþjóðlega sakamáladómstólsins sem vinnur að rannsókn á alþjóðaglæpum í Úkraínu.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mikið fleiri, enda fann ég það á góðum fundi sem við áttum með formönnum og fulltrúum flokka að við þetta mál er ríkur stuðningur sem endurspeglar stuðning almennings í landinu sem hefur verið mikill og áberandi. Með þessari ákvörðun erum við að axla enn frekari ábyrgð og leggja meira til þjóðar sem stendur í daglegum stríðsrekstri og fær fá tækifæri til að njóta hins daglega lífs sem við eigum kost á hér heima. Það er kannski það sem birtist manni, því oft og tíðum er þetta stríð ansi fjarri okkur í daglegu lífi, hversu dýrmætt það er að geta hreinlega farið út og átt góða stund án þess að hafa áhyggjur af því sem kann að dynja yfir, loftvarnaflautum og loftárásum, áhyggjur af því að loftvarnakerfin virki ekki sem skyldi og þeirri stöðu að þau eru auðvitað ekki alls staðar þótt þau séu tiltölulega umfangsmikil yfir Kænugarði; stöðugar áhyggjur af því hvað er fram undan. Því getur maður eiginlega ekki ímyndað sér þá streitu sem Úkraínumenn búa við. Það skiptir gríðarlegu máli að við leggjum okkar af mörkum í því sem við getum lagt af mörkum, og ég ítreka það að með þessari tillögu erum við að bregðast við því sem þau hafa beðið okkur um. Við erum að koma til móts við þeirra óskir og ég vil nota tækifærið hér og þakka mínum félögum í ólíkum flokkum á Alþingi, því að ég veit að samstaðan sem birtist með þessari tillögu er ekki sjálfgefin og ég vil fagna henni. Að lokum vil ég ítreka það, af því að málið gengur nú til hv. utanríkismálanefndar, að ég vonast til þess að nefndin geti afgreitt þetta mál snöfurmannlega í ljósi þeirrar samstöðu sem birtist hjá flutningsmönnum tillögunnar.