Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:44]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ísland stendur með íbúum Úkraínu. Í fáum ef nokkru vestrænu ríki er viðlíka stuðningur almennings við að standa áfram við bakið á Úkraínu. Við getum verið stolt af því. Samstaða hér á Alþingi skiptir miklu. Ísland hefur frá upphafi fordæmt tilefnislausa og ólöglega innrás Rússlands í Úkraínu og lýst yfir eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina og þarlend stjórnvöld. Ísland tekur fullan þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi, styður við mannúðaraðgerðir Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana og tekur á móti fólki á flótta frá Úkraínu. Ísland hefur einnig stutt Úkraínu með margþættum öðrum hætti og talað fyrir málstað landsins og íbúa þess. Það munum við halda áfram að gera.

Íbúar Úkraínu búa við stöðuga ógn alla daga, allar nætur. Loftvarnaflautur vekja fólk upp af svefni flestar nætur ef þau ná að festa góðan svefn yfir höfuð og þannig er staðan víða um landið. Þannig er staðan í höfuðborginni Kyiv. Ég eyddi þar tveimur dögum og einni nótt, aðfaranótt 24. febrúar síðastliðins, ári frá því að innrásin hófst. Það var líka fyrsta nóttin í langan tíma sem engar loftvarnaflautur hljómuðu. Þar var ég á ferð með 13 öðrum formönnum utanríkismálanefnda sem áttu þar góða heimsókn og áhrifaríka og góða fundi. Þar einmitt talaði fólk um — og ég vitna í eina þingkonu, Lesiu Vasylenko, sem sagði við mig:

Mikið var ég sátt, þetta var fyrsta nóttin sem ég hef getað sofið fullan svefn án þess að vera vakin við loftvarnaflautur. Það er vegna þess að þið eruð hér í borginni. Þeir eru ekki að ráðast á okkur núna af því að þið eruð hér, fulltrúar allra þessara ríkja, en þetta mun byrja um leið og þið farið aftur.

Og viti menn, við erum rétt komin í næturlestina af stað áfram og í átt að landamærum Póllands og þá var byrjað að skjóta aftur eldflaugum á Kyiv þannig að því miður hafði hún þarna rétt fyrir sér.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir um að kaupa færanlegt neyðarsjúkrahús fyrir særða hermenn í Úkraínu, sem fulltrúar allra flokka á Alþingi standa að, er mikilvægt og stórt skref af okkar hálfu sem mun koma að góðum notum í því hræðilega stríði sem nú skekur íbúa Úkraínu í kjölfar innrásarinnar í landið og þeirra voðaverka sem henni hafa fylgt. Neyðarsjúkrahúsið mun aukinheldur koma að góðum notum fyrir íbúa Úkraínu þegar stríðinu lýkur og enn verður sár vöntun á slíkum grundvallarinnviðum til að geta sinnt heilbrigðis- og sjúkraþjónustu við almenning í landinu.