Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

859. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Álitið var afgreitt úr nefndinni 15. mars. Undir það rituðu auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Sigmar Guðmundsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem sagt allir sem viðstaddir voru þann fund, ef ég man rétt.

Það var með bréfi í október 2022 sem forseti Alþingis sendi skýrslu Ríkisendurskoðunar um Innheimtustofnun sveitarfélaga til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Nefndin tók skýrsluna til umfjöllunar og fékk til sín gesti.

Á fund nefndarinnar komu frá Ríkisendurskoðun Guðmundur B. Helgason ríkisendurskoðandi, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, Einar Örn Héðinsson og Guðbjartur Ellert Jónsson. Frá innviðaráðuneyti komu Aðalsteinn Þorsteinsson og Guðni Geir Einarsson. Frá nýrri stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga komu Aldís Hilmarsdóttir og Þóra Björg Jónsdóttir. Guðjón Bragason og Valgerður Rún Benediktsdóttir komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Meginniðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar varða framkvæmd og þróun innheimtu á vegum Innheimtustofnunar og það að henni hafi verið ábótavant, sérstaklega innheimtu meðlaga. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru lagðar fram nokkrar tillögur sem ég mun fara yfir í mjög stuttu máli. Vert er að taka fram að lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga eru frá árinu 1971 og taka ekki með afgerandi hætti á yfirumsjón og eftirliti með stofnuninni. Stofnunin er sameiginleg eign sveitarfélaganna og er ábyrgð þeirra í raun afmörkuð við tilnefningar í stjórn hennar. Ábyrgð á framkvæmd innheimtu hefur því verið á hendi Innheimtustofnunar og ríkið borið kostnaðinn. En það hefur verið misræmi og ástæða er talin til að koma innheimtu á hendur eins aðila.

Fjallað er bæði um upplýsingakerfi, gæðakerfi og annað slíkt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ekki er beinlínis þörf á því að fara yfir það hér í miklum smáatriðum. Þó skiptir máli að fram komi að virði eldra kröfusafns Innheimtustofnunar, eins og það er kallað, er í mikilli óvissu. Það kom skýrt fram bæði í skýrslunni og hjá viðmælendum og gestum nefndarinnar. Það hefur verið metið á 16 milljarða kr. eða svo. Ekki er þó víst að það séu innheimtanlegar skuldir eða innheimtanlegar kröfur.

Þá lagði Ríkisendurskoðun til að verkefni Innheimtustofnunar flyttust frá henni og til innheimtumanna ríkissjóðs. Brugðist var mjög fljótt við því í innviðaráðuneyti. Nú fyrir nokkrum dögum afgreiddi hv. umhverfis- og samgöngunefnd mál innviðaráðherra, þar sem lagt er til að innheimta fari frá Innheimtustofnun, að hún verði í raun lögð niður að mestum hluta og að verkefnin verði flutt til innheimtumanna ríkissjóðs eða sýslumannsembætta. Ég geri ráð fyrir að það standi að þau flytjist til sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar voru fjórar aðalábendingar. Sú fyrsta varðaði ábyrgð á innheimtu meðlaga og nauðsyn þess að endurskilgreina hana. Segja má að brugðist hafi verið við því strax í vetur í Stjórnarráðinu af hálfu hæstv. ráðherra. Það er ekki á hverjum degi sem brugðist er svo fljótt við niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Það er mjög gott til þess að vita að það var gert og við stöndum hér í sömu vikunni að ræða bæði álit um skýrslu Ríkisendurskoðunar og einnig þá afgreiðslu sem frumvarp hæstv. ráðherra hefur fengið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Önnur ábendingin varðar meðhöndlun óinnheimtra krafna, eins og ég nefndi áðan. Óinnheimtar meðlagskröfur eru eignfærðar í ársreikningi Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Árlega hafa bæst við þær kröfur sem ekki innheimtast innan ársins. Í árslok 2021 stóð bókfært virði kröfusafnsins í 16,3 milljörðum kr. Það kom skýrt fram, eins og ég sagði áðan, bæði í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í máli gesta sem komu á fund nefndarinnar, að virði þessa kröfusafns væri óljóst og jafnvel hverfandi.

Meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tekur undir með Ríkisendurskoðun um að rétt sé að kröfusafnið verði flutt í heild sinni til ríkisins, eins og nú hefur verið lagt til, með samkomulagi við eigendur Innheimtustofnunar. Mikilvægt er að fram komi að sveitarfélög — Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þeirra hönd — styðja þær breytingar, sem hér hafa verið lagðar til, á færslu þessa verkefnis frá Innheimtustofnun til innheimtumanna ríkissjóðs, eins og þar stendur.

Fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt væri að óvissan um verðmæti kröfusafnsins yrði ekki til þess að tefja flutninginn. Hún hefur ekki orðið til þess og ekki tafið það verkefni sem blasti við.

Þriðja ábending í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðar greiningu á tæknilegri högun, eins og það er orðað. Bent er á að ráðast þurfi í nauðsynlegar uppfærslur, úrbætur og breytingar á meginupplýsingakerfi Innheimtustofnunar. Í athugasemdum með frumvarpinu sem mælt var fyrir, og hefur verið til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um verkefnaflutning til ríkisins, kemur fram að innheimtukerfi verði fyrst um sinn óbreytt. Sem ég stend hér rekur mig ekki minni til þess að það hafi breyst í umfjöllun nefndarinnar. Aðrir hv. þingmenn geta væntanlega rifjað það upp við þessa umræðu. Það er auðvitað mjög mikilvægt þrátt fyrir verkefnaflutning að upplýsingakerfi sé í lagi og uppfært og sé lagað að þeim verkefnum sem þarf að sinna og að það sé gert með besta hugsanlega hætti.

Í fjórða lagi bendir Ríkisendurskoðun á mælikvarða og mat á árangri. Þar kemur fram að Innheimtustofnun hafi haft á að skipa góðu starfsfólki með langan starfsaldur. Veikleiki í starfi stofnunarinnar hafi verið að þar hafi ekki verið skráðir verkferlar og ekkert eiginlegt gæðastjórnunarkerfi verið fyrir hendi. Skort hafi á skjalfestingu verkferla. Eins og við vitum þýðir það að þá verður skortur á samfellu í starfi og samræmi í ákvörðunum.

Þá má taka fram að umboðsmaður Alþingis hefur áður fundið að málsmeðferð Innheimtustofnunar og beint því til hennar að tiltekin atriði yrðu skýrð, sett í skýrari búning og skýrari farveg, eins og það var orðað, og vandað til stjórnsýsluhátta og upplýsingagjafar, sérstaklega í samskiptum við meðlagsgreiðendur.

Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beinir því til innviðaráðuneytis að hafa ábendingar umboðsmanns Alþingis til hliðsjónar við þann flutning sem nú hefur verið ákveðinn til embættis sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur Innheimtustofnun staðið í stað. Það má að einhverju leyti, hygg ég, rekja til lagaumgjarðar og til þess að ábyrgð á verkefninu var sameiginleg hjá öllum sveitarfélögum. Þegar ábyrgð er sameiginleg hjá mörgum verður stundum ekki alveg skýrt hver ber ábyrgð í raun. Þetta kom fram í samtali hv. þingmanna í nefndinni við gesti.

Þessi skortur á eigendaábyrgð er líka skortur á yfirstjórn og eftirliti. Ég bind vonir við það að yfirfærsla verkefnisins til ríkisins bæti hér úr, enda er það tilgangur yfirfærslunnar, og að innleiddir verði verkferlar, gæðastjórnun og vönduð stjórnsýsla í öllum verkefnum þessarar innheimtu. Ég á ekki von á öðru en það verði með fullnægjandi hætti í höndum sýslumannsembættisins á Norðurlandi vestra.

Að mati meiri hlutans mun flutningur verkefnisins og ábyrgð á innheimtu til ríkisins gefa tækifæri til að hefja undirbúning að mótun heildstæðrar löggjafar um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga til framtíðar. Leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að flutningur verkefnisins takist vel til.

Hæstv. forseti. Ástæða er til að benda á það að um þetta álit var fullkominn samhljómur í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég ítreka óskir um að vel gangi við verkefnaflutning og kem aftur á framfæri þeirri skoðun okkar að þetta verkefni eigi vel heima hjá sýslumannsembættinu. Ég óska þeim sem taka við þessu mikilvæga verkefni velfarnaðar í sínum störfum.