Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[16:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég fagna þessu máli og styð það sem er í raun bara lítið skref í þá átt sem við eigum að fara í því að tryggja öryggi og vernd þolenda heimilisofbeldis. Mig langar hins vegar að vekja athygli á athugasemdum sem bárust um málið varðandi m.a. það að í frumvarpinu er talað um heimild heilbrigðisstarfsfólk til að tilkynna til lögreglu en ekki skyldu. Í nefndaráliti meiri hlutans gætir ákveðins misskilnings varðandi muninn á því að starfsmanni sé skylt að tilkynna eitthvað að beiðni sjúklings eða skylt að tilkynna eitthvað án tillits til samþykkis sjúklings. Vegna þessa sýnist mér orðalaginu ekki hafa verið breytt úr heimild í skyldu. Eins og þetta frumvarp er orðað þá í rauninni fellur ákveðið mat í hendurnar á heilbrigðisstarfsmanni, að meta hvort hann eigi að nýta þá heimild sem hann hefur til að tilkynna til lögreglu. Það eru ákveðnir ágallar á þessu frumvarpi sem ég vek athygli á og ég vona að verði lagfærðir í framtíðinni og verði hugað að í framkvæmd. Að því sögðu þá styð ég þetta mál enda snýst það fyrst og fremst um að skapa heimild til miðlunar persónuupplýsinga sem getur verið nauðsynleg í þessum málum.