Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:08]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér þykir leitt að sjá að hæstv. matvælaráðherra er að fara úr salnum. Ég held að hún og fleiri þingmenn í Vinstri grænum hefðu gott af því að fara örlítið betur yfir þetta mál og hlýða á athugasemdir þingmanna. Áður en lengra er haldið vil ég þakka hv. formanni atvinnuveganefndar, Stefáni Vagni Stefánssyni, fyrir lipra fundarstjórn. Þar þurfti formaðurinn örugglega að grafa djúpt í reynslubanka sinn til að koma á sáttum innan stjórnarliðsins, svo mikill var atgangurinn hjá einum helsta talsmanni þessa frumvarps, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Hún gekk fram fyrir hönd hæstv. ráðherra eins og skjaldmær og vildi drífa þetta mál í gegn þó að flest, ef ekki allt, í frumvarpinu væri andstætt stefnu Vinstri grænna. Ég mun fara stuttlega yfir það.

Ég ítreka að mér þykir mjög miður að hæstv. matvælaráðherra skuli ekki hafa tíma til að hlýða á umræðu um málið því að vissulega má ýmislegt laga í því. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Það er alveg ljóst að í umræðu um sjávarútvegsmál hafa fulltrúar SFS, sem þetta mál varðar einna mest, og Landssamband smábátaeigenda haldið því fram að naumt sé skorið hvað varðar veiðiheimildir. Það eru sérstaklega fulltrúar SFS. Þess vegna mætti alls ekki hliðra til hvað varðar strandveiðar. Þeir væru við það að binda togarana við bryggju. Það er ekkert sem liggur á. Þess vegna held ég að það væri ágætt að hæstv. matvælaráðherra, þó að hún hafi ekki tíma til að sitja í salnum nú, að hún hlýddi á þessa ræðu og drægi þetta frumvarp til baka í kjölfarið. Ekkert kallar á að þetta frumvarp fari í gegn.

Það er rétt að fara aðeins yfir efni frumvarpsins. Það snýst um það í stuttu máli að afnema allar takmarkanir á afli skipa sem toga uppi við landsteina og láta lengdartakmarkanir gilda. Þá geta öflugir en stuttir togarar togað uppi við landsteina, eða þrjár mílur frá landi. Það er innan við 5 km frá landi. Þetta er bara steinsnar og nánast uppi í fjöru, það sem heimilað er í þessu frumvarpi. Þeir þurfa ekki að hafa aðeins eina heldur geta haft tvær botnvörpur. Það er ekkert sem mælir á móti því og það er meira að segja rætt.

Þetta frumvarp siglir undir fölsku flaggi. Það læst vera liður í orkusparnaði og orkuskiptum og liður í því að spara jarðefnaeldsneyti. Svo er alls ekki. Það er ekki hægt að ganga út frá því að svo sé. Menn sjá það í hendi sér að meðan ljáð er máls á því að togarar geti stækkað vélar sínar og engin mörk á því, þá opnar það á að menn geti notað enn þyngri veiðarfæri og farið enn grynnra og nær með jafnvel tvö troll aftur í togurum. Þetta er í raun alveg andstætt stefnu Vinstri grænna. Þetta er ekki gömul stefna sem ég hef grafið upp heldur er þetta stefna sem var samþykkt 17. til 19. mars á Akureyri.

Ég prentaði hana út og vil fá að lesa örlítinn kafla úr stefnu Vinstri grænna sem var samþykkt 17. til 19. mars, með leyfi forseta:

„Landsfundurinn ályktar að ekki verði leyft að auka enn frekari veiðar togskipa með auknu vélarafli og öflugum botndregnum veiðarfærum innan viðkvæms botnvistkerfis á grunnslóð. Veiðar og notkun veiðarfæra verði byggðar á rannsóknum með áherslu á verndun uppeldisstöðva fiskstofna og lífríkis sjávar í efnahagslögsögu Íslands.“

Við getum ekki sakast við almenna flokksmenn Vinstri grænna. Þeir gerðu sitt. Þeir samþykktu þessa stefnu. Við getum hins vegar furðað okkur á þeim fulltrúum sem hafa valist fyrir þetta framboð á Alþingi. Þetta frumvarp, sem hér er til umræðu, er ekki í neinu samræmi við stefnu flokksins. Það er engu líkara en fyrirmenn flokksins hafi tekið þessa liðsmenn í gíslingu, samþykki allt annað og geri nákvæmlega ekkert með stefnu flokksins. Það er ekki snefill af stefnu flokksins í þessu frumvarpi, hvað þá í þeim vinnubrögðum sem hæstv. matvælaráðherra hefur viðhaft við að koma þessu frumvarpi í gegn.

Með þessu er þrengt að smábátum. Ég ætla ekki að þreyta þingheim á því að lesa upp úr mikilli og göfugri stefnu Vinstri grænna um hvernig þeir vilja efla smábátaútgerð og félagslega þáttinn í fiskveiðistjórnarkerfinu. En við erum ekki að gera það. Við erum að þrengja að smábátum. Við verðum líka að spyrja okkur: Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Er það gott fyrir Ísland að koma upp stórvirkum togurum og reyna síðan að slökkva á allri nýsköpun og nýliðun í atvinnugreininni? Er það svona eftirsóknarvert? Greinilega, ef hlýtt er á hæstv. matvælaráðherra og lesin þau frumvörp sem koma á færibandi til þingsins frá henni. Þau miða öll að þessu.

Hér er t.d. frumvarp um strandveiðar þar sem reynt er að etja strandveiðisjómönnum saman í stað þess að sýna bjartsýni og skoða það að auka frelsi til veiða. Margt bendir til að tækifæri séu til þess núna. Nei, frekar ræðum við frumvarp sem snýst fyrst og fremst um það að hleypa öflugri skipum með stærri skrúfu og meira vélarafli inn á grunnslóð. Þetta er alveg óskiljanlegt.

Það er ýmislegt sem vekur spurningar líka. Það er framganga Hafrannsóknastofnunar í þessu máli. Í umsögn um þetta frumvarp kom fram að þetta skipti engu máli. Þetta hefði engin áhrif á lífríki eða fiskstofna þó að farið væri með meira vélarafl og stærri skrúfur inn á grunnslóð. Það hefði ekki nein áhrif. Maður spyr sig: Hvers vegna koma fram svona umsagnir? Þá fór ég að skoða hlutina og gróf upp ekki gamla skýrslu. Hún er ekki nema fimm ára gömul. Þar kom fram hjá helsta sérfræðingi Hafró í veiðarfærum — gott ef hann er ekki kominn yfir til SFS, sá ágæti sérfræðingur — að ófært væri að ákveða veiðisvæði eingöngu út frá lengd skipa heldur þyrfti einmitt að horfa til vélarafls og stærðar skrúfu. Það er einmitt það sem horft er fram hjá í þessu frumvarpi. Ekki hefur komið fram hjá sérfræðingum Hafró hvers vegna þeir hafi allt í einu snúið við blaðinu. Hvers vegna er það? Það hafa ekki komið neinar skýringar.

Á nefndarfundi sem ég rak nefið inn á spurði ég forstjóra Hafró hvort rétt væri að horfa algjörlega fram hjá aflvísisstuðli. Í svörum hans kom fram að þetta væri ekki gott. Þegar gengið var eftir þessu voru svör eitthvað á þá leið að þetta væri óljóst hugtak. Það kemur mér algjörlega á óvart að þetta sé óljóst hugtak. Það segi ég m.a. vegna þess að ég er í helgarnámi í vélstjórn í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þar er þetta ekkert flókið. Þetta er mjög einfalt. En þetta virðist vera flókið á Hafró. Menn tala um þetta sem eitthvert margslungið hugtak, sem það er alls ekki. Það þyrfti að fá fram hvers vegna menn snúa allt í einu við blaðinu. Hér er fimm ára gömul skýrsla þar sem segir að ótækt sé að miða aðeins við lengd því að heldur eigi að horfa á vélarafl og togkraft. En núna er allt í einu allt annað uppi á teningnum. Það er í fleiru sem gaumgæfa þarf störf þessarar ágætu stofnunar.

Varðandi ráðgjöf um hvað má veiða mikið og allt það, hún hefur náttúrlega ekkert gengið upp. Þess vegna set ég spurningarmerki við það þegar menn líta á ráðgjöf frá þessari ágætu stofnun, þó að vissulega sé margt gott unnið þar, sem einhvern heilagan sannleik. Þannig eru vísindin ekki. Vísindin eiga að snúast um að tekist sé á og að gagnrýnin hugsun sé í gangi, en ekki að það sé eitthvert „híerarkí“, að þessi skoðun sé fyrir fram réttari en önnur. Ég held að þarna sé rétt að staldra við. Ég skora þess vegna á hæstv. matvælaráðherra að sjá til þess að þetta frumvarp verði dregið til baka.

En þá er aftur komið að verðmætasköpuninni, sem ég kom inn á áðan. Er betra, eins og hæstv. ráðherra virðist stefna að, að taka sem mestan afla á togskipum? Er það betra fyrir þjóðarbúið? Ég tek fram að ég er alls enginn andstæðingur togskipa og tel að þau eigi fullan rétt á sér og séu nauðsynleg. En þegar það er gert á kostnað dagróðrabáta er það þjóðhagslega óhagkvæmt. Það er þannig. Það er alveg ljóst að dagróðrabátar, sem verður mögulega þrengt að með þessu frumvarpi, skila verðmætari afla í land. Ég segi þetta ekki út í loftið. Ef fiskur kemur á markað frá dagróðrabáti fær hann hærra verð en vikugamall togarafiskur.

Ég tek fram að togarar eru lífsnauðsynlegir fyrir atvinnuveginn. Þess vegna er slæmt að hæstv. matvælaráðherra skuli ekki hlýða á Landssamband smábátaeigenda. Hún virðir þá að vettugi og ræðir ekkert við þá. Þeirra sjónarmið fá ekki hljómgrunn og eru varla rædd. Þess vegna held ég að við séum komin í vanda. Það eru komin einhver átök um mál sem menn ættu að geta náð saman um og fundið skynsamlega lausn á.

Þetta er ekki gott frumvarp fyrir Ísland. Hæstv. matvælaráðherra hefur í störfum sínum í þessu máli og ýmsum öðrum ekki haft víða sýn á hlutina, því miður, heldur virðist hún vera mjög þröngsýn í þeim frumvörpum sem hún leggur fram. Það eru þau sem koma innan úr kerfinu. Þeir minni í atvinnugreininni eru settir til hliðar og þeim ýtt út í horn. Hún horfir á stórvirkar vinnslur sem svar og framtíðarsýn Vinstri grænna. Hún deilir þeirri sýn ekki með almennum flokksmönnum Vinstri grænna. Þeir hafa samþykkt eitt en hún gerir eitthvað allt annað. Það er miður.