Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:36]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega alveg augljóst að miklu meiri líkur eru á því að þetta frumvarp muni leiða til meiri olíueyðslu og það mun örugglega ekki hafa góð áhrif á lífríkið að draga enn þyngri veiðarfæri og enn grynnra en áður. Það er alveg augljóst. Ég held að okkur skorti ákaflega hér í þessari umræðu fulltrúa Vinstri grænna en ég sé bara engan þeirra hér í þingsalnum og engan skal undra. Það er bara óverjandi að flokkur sem kennir sig við eitthvað vinstri grænt skuli leggja svona frumvarp fram. Óskiljanlegt. Hvers vegna erum við lent í þessu? Ég held að hæstv. matvælaráðherra, sem sagðist í upphafi valdaferils síns sem ráðherra ætla bæði að leiða til aukins jafnréttis og sætta sjónarmið, hafi einfaldlega ekki tekist vel upp. Það sést í þessu máli og fjölmörgum málum. Og hvers vegna er það svo? Ég held og ég er í rauninni alveg viss um það að hún sé ekki að ræða við alla hagaðila málsins og horfi ekki heldur til almannahagsmuna fyrst og fremst þegar hún er að fara yfir mál. Ég tel alveg augljóst að það sé hægt að ná sátt í málinu með margvíslegum hætti. Það eru mikil tækifæri í að gera betur og það er mjög leitt að vera alltaf að tefla fram útgerðarflokkum sem einhverjum andstæðum, smábátar og togveiðibátar. Það er einfaldlega mikið tækifæri í þessu kerfi til að gera mun betur. Ég vona svo sannarlega að þó svo að hún klúðri þessu máli hér í gegn þá komi einhver breyttur taktur í þetta því þetta gengur ekki svona áfram og það er virkilega tækifæri til að gera betur í sjávarútvegsmálunum.