Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:42]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum hér æðislegt frumvarp að mati Vinstri grænna, með loftslagsmarkmið, olíusparnað, orkuskipti og ég veit ekki hvað allt þetta heitir, akkúrat þessi mál og þessi gildi sem Vinstri grænir segjast standa fyrir. Þess vegna vekur furðu að þeir skuli ekki láta sjá sig í umræðunni. Telur hv. þingmaður að það geti verið að þeir séu búnir að átta sig núna, séu að átta sig á því að þetta frumvarp geti augljóslega snúist upp í andhverfu sína eins og hefur verið skýrt tekið fram af hv. þm. Teiti Birni Einarssyni? Telur hann að sú gæti verið raunin og þess vegna sé þessi flótti héðan, að þeir geti ekki tekið þátt í þessari umræðu, þeir séu búnir að átta sig á því að þetta frumvarp er bara vitleysa og fari augljóslega í berhögg við stefnu flokksins og hafi ekki einfaldlega þor og kjark til að draga málið til baka? Hvað getur skýrt þetta, að menn komi hér með frumvörp sem ganga gegn grunnstefnu flokksins sem var samþykkt núna bara á þessu ári, fyrir örfáum vikum síðan? Þegar þeir er inntir eftir röksemdum þá eru þeir bara flúnir úr salnum. Þetta er ekki stórmannlegt. Þess vegna væri fróðlegt að fá skýringar hjá hv. þingmanni sem hefur talsverða þingreynslu og þekkir þessi mál, hvað geti skýrt það að menn taki ekki til máls og hann reyni alla vega að útskýra fyrir okkur, sem botnum ekkert í þessu, hvað sé í gangi.