Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:47]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel þetta vera bara ágætisskýringu hjá hv. þingmanni, að þetta skýrist mögulega af einhverjum barnalegheitum. Það er miður á hinu háa Alþingi að menn hafi ekki vit til að vægja og hafa það sem sannara reynist og taka upp góða stjórnarhætti. Miðað við atganginn og það sem gekk á þegar verið var að taka þetta mál út úr atvinnuveganefnd, þá var mér ekki um sel. Það var bara tekist hart á innan stjórnarmeirihlutans. Ég er svo hissa, miðað við það sem gekk á hjá hv. þingmanni Vinstri grænna, að hún skuli ekki vera hér og útskýra fyrir okkur hvað hún sér í þessu, að hennar mati, góða loftslagsfrumvarpi, sem við sjáum ekki. En það væri ágætt líka að að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum stóriðjurekstri á fiskimiðunum þar sem Vinstri grænir virðast vilja frekar hliðra til fyrir stórum og aflmiklum togbátum á kostnað hinna smáu. Ef maður horfir bara á þau verðmæti sem hver og einn þorskur af dagróðrabáti skilar, sem er heldur hærra, er þetta ekki misráðið út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar og síðan því augljósa að vera að toga með meira afli og meiri þyngd á grunnslóðinni? Maður bara skilur ekkert í þessu.