Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er því miður þannig hér á þingi nú að við erum allt of lítið að hlusta á hvert annað og allt of lítið að hlusta á rökin frá hvert öðru og við erum allt of lítið í því að finna milliveginn. Þá er ég ekki að tala um málamiðlanir heldur að ræða málin hreint og opinskátt. Þetta er eitthvað sem tíðkaðist á þingum hér áður fyrr. Ég kem nú úr ætt þar sem afar mínir voru á sitt hvorum enda hins pólitíska litrófs og þeir gátu talað saman og rætt saman og lagt fram frumvörp saman þótt þeir kæmu úr ólíkum áttum. Í dag virðumst við ekki kunna nógu mikið af þessu og við þurfum að fara að tileinka okkur þessa leið.

Varðandi það hvort það eigi bara að verksmiðjuvæða veiðar við Ísland þá hefur náttúrlega komið fram þegar Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru spurð, að þau segja að það væri hægt að sleppa öllum litlu strandveiðibátunum og setja bara eitt öflugt skip í staðinn og veiða þetta. Já, það er hægt að gera ýmislegt ef við viljum bara hámarka fiskinn sem við tökum úr sjó og sleppa því að hafa áhyggjur af umhverfinu, áhyggjur af lífríkinu, áhyggjur af því hvort það verði einhver fiskur til í framtíðinni. Það er ýmislegt hægt. En ég vona að við sem sitjum hér inni höfum skilning og vit á því að það þarf að passa upp á margt af þessu.