Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[16:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þessi tillaga er að mörgu leyti alveg ágæt. En það er hins vegar einn galli í þessu öllu saman sem ég hef rekið augun í og varð fyrir töluverðum vonbrigðum með. Það barst mjög vönduð umsögn um þessa tillögu frá Minjastofnun Íslands þar sem stofnunin telur upp atriði sem hún telur æskilegt að séu inni í þessu, atriði sem eru í raun og veru mjög mikilvæg að mínu mati. Vil ég þar t.d. nefna lið C.8 þar sem rætt er um heildstæða stefnumótun í mannvirkjagerð en Minjastofnun leggur til að undir liðinn Framkvæmd verði bætt við: mikilvægi handverksþekkingar, aðferða og efnisvals við viðhald og endurgerð mannvirkja sem tilheyra íslenskum byggingararfi. Ég held að það séu flestallir þingmenn sammála því að þetta sé mjög þörf og góð ábending sem ætti einmitt að vera í aðgerðaáætlun um hönnun og arkitektúr fyrir árin 2023–2026. Minjastofnun er með fleiri atriði sem hún telur nauðsynlegt að séu þarna inni og eru það því miður ekki, þetta kemur allt fram í umsögninni, m.a. það að endurnýta hús eða mannvirki að hluta eða í heild. Nú er það orðið mjög umhverfisvænt. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvers vegna horfir nefndin ekki til þessarar umsagnar Minjastofnunar við afgreiðslu á þessari tillögu? Það er heldur ekkert um hana í nefndarálitinu. Ég tel, herra forseti, að þetta sé mikill galli á annars ágætri tillögu.