Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[17:01]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að byrja á að þakka fyrir ágæta kynningu á tillögunni og þakka sömuleiðis hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir lipurlega fundarstjórn í yfirferð um málið. En ég sakna þess talsvert er að það sé ekki tekið á einu mesta vandamáli í hönnun húsa sem hefur hrjáð þjóðina á síðustu árum og þá er ég að tala um mygluna. Vissulega er þetta mjög fínt plagg. Ég átti nú stundum svolítið erfitt með að stauta mig í gegnum það, ég var bara að átta mig á því hvað væri samfélagslega hönnunardrifin nýsköpun, það er eitthvað sem ég þurfti að máta saman í kollinum hvað væri. Ég fékk reyndar ágætisskýringu á því á nefndarfundinum en ég er enn þá að meðtaka hvað það var. En ég held, svona miðað við það ástand sem er uppi í samfélaginu, það eru margir tugir skóla á Reykjavíkursvæðinu þar sem annaðhvort hefur verið lokað eða eru vandamál með myglu og við í Skagafirðinum höfum ekki farið varhluta af myglu og víðar um landið, þá væri svolítið gott að koma þessu inn í umræðuna. Þó að þetta sé fínt plagg um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs þá er það sem brennur á okkur, það er þessi bölvaða mygla. Það væri ágætt ef það væri hægt að koma því í umræðuna og leysa það. En að öðru leyti þakka ég fyrir.