Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[17:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá hér aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs sem kynnir jafnvel fyrir hv. þingmönnum hugmyndafræðina um hönnunardrifna nýsköpun, svo ekki sé nú talað um samfélagslega nýtingu hönnunardrifinnar nýsköpunar. Það er nefnilega þannig að menn áttuðu sig á því fyrir ekkert allt of löngu, áratug eða tveimur, að það væri mikilvægt að nota þá aðferðafræði sem nýtt hefur verið í hönnun á mörgum öðrum sviðum. Það er því ánægjulegt að sjá að hér inni er verið að bæta því inn. Ef ég man rétt er kafli 3 um virkjun hönnunardrifinnar nýsköpunar og kafli 6 er um samfélagslega nýtingu hönnunardrifinnar nýsköpunar. Þarna er verið að leiða inn í ferli og annað þessa hugmynd um að við getum skapað hluti sem raunverulega hafa góða nýtingu. Menn byrjuðu kannski að skoða þetta vandamál einna fyrst í tæknigeiranum vegna þess að þeir uppgötvuðu að menn voru að búa til hugbúnað sem var bara ekkert að leysa vandamál, jafnvel stundum að búa til meira vandamál heldur en var upphaflega til staðar. Með því að nota þessa aðferðafræði hönnunar þá geturðu fengið dýpri skilning á því hvað það raunverulega er sem notandinn þarf. Í tæknigeiranum er það kannski einhver sem er að fara að nota spjallforrit í símanum eða eitthvað slíkt en það getur líka verið stóll eins og þeir sem við þingmenn sitjum í.

Það að nota þessa hugmyndafræði hönnunar í nýsköpun þýðir að við búum til lausnir sem passa við þá notkun sem ætluð er. Gott dæmi: Hér í þingsal, þeir sem eru að horfa sjá þetta ekki, sitja tveir þingmenn. Gæti það verið að stólarnir hér, afsakið, virðulegur forseti, og fyrir aftan mig, sem við sitjum í hafi ekki verið hannaðir til að sitja í þeim klukkutímum saman? Kannski, kannski ekki. Var það ein af hönnunarforsendum þessara stóla að það væri hægt að sitja í þeim, t.d. þegar við erum að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp sem tekur kannski fjóra, fimm klukkutíma? Voru þeir hannaðir miðað við það? Var þessi salur hannaður miðað við það og hvernig við sitjum að við værum að vinna svona? Var hann hannaður miðað við mismunandi þarfir okkar? Var hann hannaður fyrir grannt fólk, var hann hannaður fyrir okkur sem erum með aðeins of stórar bumbur? Allt þetta eru hlutir sem við tökum og horfum á í hönnunardrifinni nýsköpun. Þá nýtum við okkur þessa aðferðafræði til þess virkilega að ná fram sem bestu notagildi út úr öllu því sem við erum að gera, hvort sem það eru byggingar, stólar eða hugbúnaður.

Það er mikilvægt að við byggjum upp þekkingu og reynslu og nám og annað hér á landi sem tekur utan um þetta svið og tryggir að þarna höfum við nægan mannskap sem getur hjálpað okkur að búa til réttu hlutina. Einn góður Íslandsvinur, prófessor við Harvard-háskóla, skrifaði bók sem heitir: Af hverju er hugbúnaður vonlaus? Svarið stóð fyrir neðan: Af því að hann var hannaður af forriturum. Við sem erum forritarar hugsum ekki endilega út frá notagildinu heldur meira út frá því hvernig við getum nýtt tækni á sem flottastan hátt. Við hugsum ekki alltaf um notandann. Þess vegna þurfum við að hafa nóg af fólki sem er þjálfað og menntað í þessu og ekki bara fyrir okkur forritarana heldur líka fyrir þá sem eru að byggja hús, fyrir þá sem hanna ræðupúltið, stólana, alla þessa hluti. Því langar mig að fagna þessari tillögu til þingsályktunar. Þó svo að ég hafi ekki verið með á nefndarálitinu þá styð ég þessa tillögu heils hugar.