Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég verð að segja það hér í upphafi að það er margt gott í þessari tillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. Eins og fram kemur er lagt til að Alþingi álykti á þann veg að unnið verði samkvæmt eftirfarandi aðgerðaáætlun á sviðum hönnunar og arkitektúrs þar sem lögð verði áhersla á markvissa nýtingu á aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs til að auka lífsgæði með verðmætasköpun, nýsköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild að leiðarljósi. Allt eru þetta göfug og góð markmið.

Eins og ég kom inn á í andsvari þá þykir mér vera töluverður galli á þessari tillögu að það hafi ekki verið horft til umsagnar Minjastofnunar Íslands sem lá fyrir og nefndin fékk á sitt borð. Umsögn Minjastofnunar er mjög vel unnin og bendir stofnunin á að það vanti í þessa aðgerðaáætlun mikilvæga þætti. Ef við skoðum það nánar þá segir t.d. í aðgerðaáætluninni og þessari tillögu, í kafla C, Sjálfbærir innviðir, að hönnunarhugsun og sérþekking hönnuða verði nýtt við þróun, viðhald og uppbyggingu innviða. Hér segir Minjastofnun að sé nauðsynlegt að bæta við „endurnýtingu innviða“, sem sagt uppbyggingu og endurnýtingu innviða. Þar er ég algerlega sammála vegna þess að þetta er bara orðið stórt mál í heiminum í dag, að endurnýta byggingarefni, þetta snýr að hinu svokallaða kolefnisspori og öðru slíku og er orðið mun mikilvægara en var hér áður fyrr. Þetta er sett fram með þeim hætti að húseigendur og þeir sem eru að byggja og annað slíkt eru hvattir til að endurnýta. Að sjálfsögðu á slíkt að vera í kafla sem ber heitið Sjálfbærir innviðir. En því miður hefur ekki verið horft til þessa athugasemda Minjastofnunar. Einnig er hér í sama kafla C, um sjálfbæra innviði, liður um heildstæða stefnumótun í mannvirkjagerð og undir þeim lið kemur Framkvæmd. Þar leggur Minjastofnun til að það verði bætt við textann „mikilvægi handverksþekkingar, aðferða og efnisvals við viðhald og endurgerð mannvirkja sem tilheyra íslenskum byggingararfi“. Ég held að allir þingmenn geti verið sammála því að þetta er setning sem ætti svo sannarlega erindi inn í aðgerðaáætlun sem þessa en hefur því miður ekki ratað þar inn. Það er nú einu sinni þannig að hluti af þessari handverksþekkingu er því miður bara á undanhaldi, er að hverfa, það eru færri og færri sem læra þetta handverk. Mér skilst meira að segja að það sé orðið þannig þar sem húsasmíði er kennd að það sé orðið mjög lítið um að kennt sé að vinna með bárujárn, frágang við glugga og annað slíkt. Allt þetta sé á undanhaldi, sem er vissulega áhyggjuefni. Hér hefði verið mjög mikilvægt að þetta yrði inni í þessari aðgerðaáætlun og ég vona svo sannarlega að horft verði til þessa þegar málið verður unnið í stjórnkerfinu eins og hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson nefndi í sinni ræðu áðan. Ég fagna því að hann ætlar að vera vakandi yfir því að þessu verði fylgt eftir.

Síðan kemur fram hjá Minjastofnun að þeir leggi til að stofnunin verði samstarfsaðili í þessum verkefnum. Hér í kaflanum um hönnun sem breytingarafl og kaflanum um sjálfbærni innviða o.s.frv. er því miður ekki minnst á Minjastofnun sem samstarfsaðila sem hefði verið fullkomlega eðlilegt og lítil fyrirhöfn að bæta þeim þarna inn því að auðvitað eiga þeir að vera samstarfsaðilar í svona mikilvægu verkefni og mikilvægri aðgerðaáætlun. Ef við t.d. lítum á lið C.9, um miðlægan rannsóknarvettvang fyrir innviði, þá leggur Minjastofnun til að þar verði bætt inn í textann „endurnýting húsa og mannvirkja að hluta eða í heild, m.t.t. varðveislu vegna byggingarlistarlegs eða menningarsögulegs gildis og ekki síst umhverfis- og sjálfbærnisjónarmiða“. Þarna er enn og aftur á ferðinni mjög mikilvægur texti sem hefði verið afar æskilegt að mínu mati að hefði verið inni í þessari tillögu. Þarna er t.d. komið inn á þessi umhverfis- og sjálfbærnisjónarmið og það er verið að leggja alltaf ríkari og ríkari áherslu á endurvinnslu. Það er ekki bara sorpið sem á að endurvinna, heimilissorpið, heldur líka byggingarefni, það er lögð meiri áhersla á að endurnýta. Þarna er einmitt lögð áhersla á það hjá Minjastofnun að stofnunin sé samstarfsaðili undir þessum lið en því miður hefur það eitthvað skolast til og ekki er minnst á Minjastofnun hér.

Það eru því nokkur dæmi, því miður, herra forseti, sem benda til þess að það hafi orðið ákveðin yfirsjón við vinnslu þessarar tillögu innan nefndarinnar og er afar brýnt að því verði fylgt eftir innan stjórnkerfisins þegar þetta verður unnið og framkvæmt að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða Minjastofnunar, sem ég ítreka enn og aftur að eru mjög mikilvæg.

Ef við lítum hér á kafla D, Menntun framsækinna kynslóða, þá er þar liður D.10 sem hefur fyrirsögnina: Aukið framboð náms og endurmenntunar í hönnunargreinum. Þar leggur Minjastofnun til að eftirfarandi texti verði settur inn:

„Endurnýting og nýtt hlutverk eldri húsa með varðveislu byggingarlistar, menningarsögulegs gildis og ekki síst umhverfissjónarmið í huga. Námsframboð um hefðbundið handverk og viðhald gamalla húsa.“

Þetta er að sjálfsögðu afar mikilvægt, að það sé boðið upp á námskeið um hefðbundið handverk og viðhald gamalla húsa. Þetta er handverksgeiri innan húsasmíði sem hefur því miður dregið úr áherslu á og færri kunna og þess vegna á það að sjálfsögðu að vera inni í aðgerðaáætlun sem þessari að gripið verði til aðgerða til að auka námsframboð um hefðbundið handverk og viðhald gamalla húsa. Þetta er afar mikilvægur þáttur og enn og aftur sakna ég þess að þetta skuli ekki vera hér inni. Undir þessum lið er einmitt minnst líka á samstarfsaðila; Listaháskóla Íslands, Tækniskólann o.s.frv. en ekki minnst á Minjastofnun sem hefði átt að vera þarna inni.

Síðan ef við tökum lið D.11, þar sem fjallað er um verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs, þá kemur einmitt fram í umsögn Minjastofnunar að mikilvægt sé að huga að vandaðri skráningu byggingararfsins. Í nýrri stefnu Minjastofnunar 2022–2027 er helst fjallað um hús og mannvirki sem falla undir lög um menningarminjar, nr. 80/2012, þ.e. þau sem voru byggð fyrir 1923, friðuð hús, milli 1924 og 1940, sem eru umsagnarskyld, og þau sem hafa verið friðlýst. Svo segir hér áfram í umsögn Minjastofnunar:

„Þar fyrir utan er Minjastofnun mjög áfram um að með einhverjum hætti verði haldið utan um yngri byggingarlist og mannvirki sem kunna að hafa listrænt, menningarsögulegt eða umhverfislegt gildi en sem ekki njóta verndar skv. lögum um menningarminjar. Þar má sem dæmi nefna höfundarverk helstu arkitekta og hönnuða en einnig ákveðna flokka, svo sem iðnminjar, samgönguminjar, herminjar og minjar sem tengjast samfélagslegum breytingum (svo sem sundlaugar, félagsheimili, opinberar stofnanir, útibú Pósts og síma, o.fl.). Með því að skrá yngri minjar með skipulegum hætti öðlast minjavarslan, skipulags- og byggingaryfirvöld betri yfirsýn yfir það sem helst er vert að varðveita úr hverjum flokki.“ — Þarna er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þessarar skráningar sem hefði náttúrlega þurft að nefna í þessari tillögu. — „Án þeirrar yfirsýnar er hætta á að minjavarslan verði handahófskennd og svifasein þegar taka þarf afstöðu í einstaka málum. Án slíkrar yfirsýnar og fyrirbyggjandi ákvarðanatöku er jafnframt hætta á að ekki náist að varðveita stóra hluta af byggingararfi okkar, þar sem hann fellur ekki undir nein verndunarákvæði skv. lögum.“

Allt er þetta mjög þarfar og góðar ábendingar hjá Minjastofnun. Svo vísar stofnunin í stefnu sem var gerð af hálfu stofnunarinnar fyrir árin 2022–2027, um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi.

Síðan er hér í kafla D, um menntun framsækinna kynslóða, liður D.11, Verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs. Þar kemur framkvæmdaþátturinn og þar er nefnt að skipaður verði faglegur starfshópur sem falið verði að gera þarfagreiningu og forgangsraða verkefnum sem tengjast verndun, miðlun og rannsóknum á menningararfi íslensks arkitektúrs, og að þarfagreiningin fari síðan í opið samráðsferli. En það segir hérna í umsögn Minjastofnunar að slík þarfagreining hafi að miklu leyti þegar verið unnin og gefin út í nýrri stefnu Minjastofnunar Íslands, sem vísað er ítrekað í í umsögninni og ég hef nefnt hér. Í þessum lið er talað um samstarfsaðila og sem betur fer er Minjastofnun þar undir, en hún leggur til að fleiri aðilar verði umsagnaraðilar og nefnir þar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn og önnur byggðasöfn víða um land, áhugahópa, t.d. sögufélög eða önnur samtök, Arkitektafélag Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og jafnvel fleiri. Þetta eru þarfar og mjög góðar ábendingar og þarna leggur Minjastofnun til töluvert fleiri samstarfsaðila en nefndir eru í tillögunni.

Allt eru þetta mjög þarfar og góðar ábendingar sem Minjastofnun hefur sent frá sér og hefði átt að rýna mun betur í vinnu nefndarinnar, verð ég að segja. Við verðum að treysta því að horft verði til þessara sjónarmiða þegar málið fer til meðferðar í stjórnkerfinu eins og nefnt var hér fyrr. Ég vona svo sannarlega að það verði horft til þeirra. Þessi umsögn Minjastofnunar er aðgengileg á vef Alþingis og í raun og veru er það sem ég hef sagt hér um þetta mál lögskýring ef út í það er farið vegna þess að umræður á þingi eru mikilvæg lögskýringargögn, um hver vilji þingsins er. Það kom augljóslega fram hér í máli framsögumanns, hv. þm. Stefáns Vagns Stefánssonar, að vilji hans stendur til þess að það verði horft til þessarar mikilvægu umsagnar við áframhaldandi vinnu þessa máls innan stjórnkerfisins.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá hefði ég vissulega viljað að þessi texti hefði ratað inn í þessa þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir 2023–2026. Þetta er mikilvægt plagg, svo sannarlega, og það er margt jákvætt og gott í þessu og ég dreg alls ekki úr því. Það er t.d. lagt til að efla hönnunarsjóði og virkja til nýsköpunar og margt fleira. Auk þess er hér mjög athyglisverður kafli sem heitir Hönnun sem breytingarafl þar sem segir t.d. að hagnýting hönnunar verði vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun fyrirtækja og stofnana og hönnunarhugsun nýtt í auknum mæli til úrlausnar á fjölbreyttum verkefnum og flóknum umhverfis- og félagslegum áskorunum. Þetta eru flott og göfug markmið þannig að þó svo að ég hafi gagnrýnt það hér að ekki hafi verið horft á þessa góðu umsögn Minjastofnunar þá er margt jákvætt í þessari tillögu. Ég vil bara halda því til haga.

Að þessu sögðu, herra forseti, þá vona ég svo sannarlega að málið fái góða meðferð innan stjórnkerfisins og að þeir sem eiga að hrinda þessu í framkvæmd öllu saman horfi jákvæðum augum á það sem Minjastofnun hefur lagt til hvað þennan mikilvæga málaflokk varðar og þessa annars ágætu aðgerðaáætlun sem hér er lögð fram í formi þingsályktunartillögu.