Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:12]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta og skýra yfirferð yfir málið. Það sem mig langaði að ræða stuttlega snýr að því að tengja eftirlit Matvælastofnunar við gjaldskrá. Ég er ekki alveg viss um að menn eigi að leggja of mikla áherslu á að eftirlitið sé tengt einhverjum raunkostnaði, ekki frekar en eftirlit lögreglu sé tengt því sem innheimtist af hraðasektum. Ég ætlaði að varpa því fram til umræðu.

Nær væri að efla eftirlit með skýrum hætti og treysta því að þessi fiskeldisfyrirtæki skili góðri afkomu og sköttum í gegnum laun starfsfólks og önnur gjöld. Matvælastofnun verði síðan tryggð nægileg fjárframlög. Ég held að ekki eigi að tengja þetta of mikið saman, það er varhugavert.

Síðan er það sem snýr að sveitarfélögum, að þau séu ekki aðeins umsagnaraðilar í málinu. Ég tel mjög mikilvægt að hafnaryfirvöld og skipulagsyfirvöld sveitarfélaga fái skýrari aðkomu að þessum málum. Það væri þarft að vinna þann þátt málsins áfram. Ég er sannfærður um að svo sé.