Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara svarið. Að sjálfsögðu þurfum við betra eftirlit og meiri rannsóknir. Við þurfum líka að gera stífari kröfur. Mig langar að benda á að jafnvel eigandi Arnarlax lýsti því yfir um daginn að sjókvíaeldi væri á leiðinni burt, væri að hætta. Það er ekki víst að þær aðferðir virki á Íslandi. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa fleiri en tvö og fleiri en þrjú egg í körfunni. Við vitum aldrei hvenær fiskurinn syndir eitthvað annað vegna hlýnunar sjávar. Við vitum aldrei hvenær túristarnir ákveða, t.d. vegna hvalveiða, að hætta að koma til Íslands. Við vitum aldrei hvað getur gerst með alla þessa hluti þannig að við þurfum að hafa fullt af eggjum í körfunni.

En við megum heldur ekki gleyma því að við þurfum að byggja upp atvinnuveg sem skilar hlutum beint inn í samfélagið. Hv. þingmaður nefndi 32 milljarða kr. í útflutningstekjur. Hversu mikið af því kemur til baka inn í samfélagið á móti því sem fer í vasa þeirra sem eiga fyrirtækin? Það er eitt sem við þurfum líka að hugsa um, þ.e. sjálfbærni, að atvinnuvegir skili hlutum inn í samfélagið. Við viljum byggja upp blómstrandi byggðir, t.d. á Vestfjörðum, Austfjörðum og öðrum stöðum, en við þurfum að horfa blákalt á það að sú aðferð sem við notum nú í sjókvíaeldi er ekki góð fyrir umhverfið og lífríkið. Við þurfum að hafa valkosti.