Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Það hvort tekið sé gjald miðað við gjaldskrá eða hvort lagður sé einhvers konar skattur á þessa hluti er bara mismunandi aðferðafræði. En það sem mikilvægast er er að það sé verið að borga nægilega mikið, í hvaða formi sem það er, gjald eða skattur, til að standa undir þeim rannsóknum og því eftirliti sem þarf að vera. En hv. þingmaður nefndi einnig að við værum að tala um eitthvað sem hefði verið gert 2016 og það væru brotalamir á því. Ég held að það sé nokkuð sem bæði við hér á Alþingi sem setjum lagaumgjörðina og framkvæmdarvaldið sem er að setja reglugerðirnar og reglurnar þurfum að taka til okkar sem sterkri ábendingu um að við þurfum að gera betur þegar kemur að þessum hlutum og við þurfum að bæta okkar vinnu. Við erum allt of oft að framkvæma einhverjar litlar breytingar, svona eitt og eitt, eða við segjum: Við breytum þessu við heildarendurskoðun. Við þurfum að finna einhvern meðalveg þarna á milli vegna þess að annars vegar erum við að gera breytingar sem hafa slæm áhrif vegna þess að við hugsuðum þetta ekki nóg eða við erum ekki að gera neinar breytingar í langan tíma sem hefur þau áhrif að ekkert lagast.

En það er líka annað sem við þurfum að hafa í huga; það eru að verða miklar breytingar þegar kemur að skilningi á umhverfi. Það er bara allt annar heimur sem við lifum í núna, þetta mörgum árum seinna, en við gerðum 2016 og við höfum miklu meira skilning á því núna að við þurfum að vernda umhverfið, að við þurfum að vernda lífríkið hvað sem það kostar.