153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

tollfrjáls innflutningur frá Úkraínu.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að þetta bráðabirgðaákvæði var samþykkt hér í júní 2022, um tollfríðindi fyrir Úkraínu umfram það sem kveðið er á um í fríverslunarsamningnum. Við þekkjum ástæðuna, það er augljóslega stuðningur við Úkraínu eins og hv. þingmaður nefnir. Fyrst og fremst er þetta auðvitað utanríkispólitísk ákvörðun miklu frekar en ákvörðun sem snýr að matvælastefnu. Þarna vildum við sýna stuðning í verki. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef þá hefur verðmæti þessara vara á gildistíma ákvæðisins numið u.þ.b. 94 millj. kr. samanborið við u.þ.b. 25 millj. kr. árið 2021. Þessi aukning stafar fyrst og fremst af innflutningi á alifuglakjöti. Við vitum að rætt hefur verið um að það sé mikilvægt að hafa eftirlit með þessu umfangi og ég er algerlega sammála því að það er mikilvægt að fylgjast grannt með en um leið hefði ég talið það skynsamlega ákvörðun að halda þessu áfram.

Hv. þingmaður spyr: Hvar er málið statt? Ég ætla bara að viðurkenna að það hefur ekki komið inn á borð ríkisstjórnar. Hins vegar er auðvitað hægur vandi að framlengja þetta ákvæði þar sem það kallar á lagasetningu sem ég, eins og ég segi, lít á hana sem utanríkispólitíska. Vegna þeirra áhrifa sem þetta kann að hafa á innlendan markað þá tel ég líka mikilvægt að við fylgjumst vel með umfanginu og áttum okkur á því hvort þetta kunni að hafa einhver áhrif á samkeppnisstöðu innlends alifuglakjöts. Málið hefur ekki enn komið, eins og ég segi, á borð ríkisstjórnar. Ég lít svo á, þar sem hv. þingmaður beinir þessu til mín, að það sé mitt að kanna stöðu málsins.