153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er forsætisráðherra í landi þar sem hefur verið byggt upp; þar sem hefur verið byggt upp í heilbrigðiskerfinu og ráðist í fjárfestingar í því sem ekki var ráðist í í tíð fyrri ríkisstjórna. Ég er forsætisráðherra í landi þar sem hefur verið lögð áhersla á að bæta t.d. kerfi almannatrygginga og standa þannig vörð um þá sem verst standa í samfélaginu. Ég er forsætisráðherra í því landi. Þegar hv. þingmaður segir að enginn tali fyrir þessari fjármálaáætlun, ekki einu sinni ríkisstjórnin sjálf, þá hafna ég því. Hins vegar höfum við sagt að mögulega þurfi að beita meira aðhaldi á komandi árum til þess að ráða bug á verðbólgunni. Að halda því fram að ég geri lítið úr þeim vanda er auðvitað alrangt. Þetta er risastórt verkefni sem kallar auðvitað á samstillt átak allra, ekki bara ríkisstjórnarinnar þótt vissulega hafi hún hlutverki að gegna, heldur líka auðvitað Seðlabankans, sem er auðvitað leiðandi þar, og vinnumarkaðarins. Hv. þingmaður vísaði í vinnumarkaðinn áðan. (Forseti hringir.) Við erum í samstarfi við vinnumarkaðinn að meta sérstaklega áhrif verðbólgu og vaxtahækkana á ólíka hópa. Það erum við að gera með aðilum vinnumarkaðarins. Við erum með aðilum vinnumarkaðarins að vinna tillögur að úrbótum á húsnæðismarkaði, (Forseti hringir.) þar sem margt hefur verið gert á síðastliðnum árum en meira þarf til, og við erum með aðilum vinnumarkaðarins að horfa sérstaklega á kjör barnafjölskyldna. Allt skiptir þetta máli í aðdraganda kjarasamninga.