153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

staða leigjenda og aðgerðir á leigumarkaði.

[14:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessi mál upp og fyrir tækifærið til að fara aðeins yfir það. Ef við skoðum opinberar tölur, og það er nú verið að tala dálítið fyrir því, þá höfum við séð að allt fram til þess árs, ef við skoðum bara tölur út árið 2022, hefur leiguverð hækkað minna en bæði húsnæði og laun og munar þar talsverðu, sérstaklega á húsnæðisverði. Þangað til um þessi áramót, og jafnvel á nokkrum tímabilum á árunum 2020 og 2021, var leiguverð til þess að gera nokkuð hagkvæmt. En staðan er auðvitað sú að mikill eftirspurnarþrýstingur er vegna stöðugs innflutnings á fólki, okkur fjölgar sem aldrei fyrr, sem og vegna ferðaþjónustunnar. Þess vegna erum við með starfshóp, sem var rétt hjá hv. þingmanni, þar sem er m.a. verið að skoða ákveðna hluti er varða Airbnb-umhverfið. En við erum líka með starfshóp sem hefur verið að störfum frá því síðastliðið haust og hélt áfram núna eftir áramót þar sem til að mynda eitthvað sem heitir leigubremsa eða leiguteygja eða eitthvað slíkt er sérstaklega til skoðunar til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og sanngirni um breytingar á leigufjárhæð, jafnt á samningstíma sem og við framlengingu eða endurnýjun leigusamnings. Við þekkjum þetta frá öðrum löndum, það var t.d. á tímabundið svona fyrirkomulag í Danmörku fyrir rúmu einu ári til tveggja ára. Það eru margir sem hafa sagt að sé þetta viðvarandi kerfi muni allir leita einhverra leiða til að komast undan því en við þessar aðstæður sem uppi eru núna sé þetta eitt af því sem megi skoða. Það er líka verið að skoða fleiri þætti í þessu framboði og stöðu leigjenda til að styrkja stöðu leigjenda gagnvart leigutaka. (Forseti hringir.) Þar eru undir þó nokkrir hlutir sem munu skýrast núna á næstu dögum og vikum. Starfshópurinn mun skila af sér (Forseti hringir.) fyrir 1. júlí einhvers konar drögum að frumvarpi sem verður lagt fram næsta haust.