Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

ný sorpbrennslustöð.

312. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa fínu umræðu. Já, við eigum að hætta að urða sorp og stíga stór skref í því. Ég vil fullvissa hv. þm. Orra Pál Jóhannsson um að bara með því að Ísland byrji að uppfylla markmið ESB um meðhöndlun úrgangs þá munum við stíga stór skref fram á við. Við þurfum heldur ekki að bíða eftir þeim, við getum gert þetta sjálf en við höfum ekki gert það enn þá. Það er ágætt að horfa á þau markmið sem þar eru gefin. Ég vil taka undir það að þetta þarf að nálgast heildstætt, hvort sem ríki eða sveitarfélög eru með málaflokkinn. Ég ætla ekki að fara inn í þessa innanhússdeilu hjá Sjálfstæðisflokknum hvað það varðar. Ég vil hins vegar eindregið taka undir þessa heildstæðu nálgun. Auðvitað er það þannig að þó að málaflokkar séu hjá sveitarfélögum eins og leikskólar eða grunnskólar þá setur ríkið ákveðna rammalöggjöf og við þurfum á þeirri heildstæðu nálgun að halda. Mér finnst skipta máli að við fáum ekki bara snert af þessari framtíðarsýn heldur líka stefnu, skýra stefnu um hvert við erum að fara í þessu.

Ég vil fagna þeim tóni sem hér hefur verið sleginn varðandi það að við eigum að fá fyrirtækin og atvinnulífið enn frekar að þessu. Það er mikil hvatning innan Evrópusambandsins til að fá aðila atvinnulífsins til að koma að stefnumótun varðandi vinnslu úrgangs þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til þess og ég veit að hann hefur hug til þess að taka atvinnulífið markvisst inn í þessa stefnumótun. Ég vil hvetja hann til að stíga stærri skref, stíga heildstæðari skref og segja skýrt: Já, við ætlum að koma upp sorpbrennslu hér á Íslandi með það að markmiði að minnka úrgang. Ég tek alveg undir það sem hæstv. ráðherra varaði við, við þurfum að passa að ekki fljóti með inn í sorpbrennsluna hlutir sem eiga ekki heima þar heldur eiga heima annars staðar í endurvinnslunni. Það er að mörgu að hyggja. En núna finnst mér skipta mestu máli að það sé talað skýrt, við fáum skýra framtíðarsýn, við fáum atvinnulífið inn í þetta og það sé einfaldlega sagt: (Forseti hringir.) Við þurfum sorpbrennslu hérna til þess að geta sinnt þessum hlutum sjálf. Það eru ótal dæmi bara að undanförnu, eins og nefnt hefur verið, sem sýna það og sanna að við þurfum að taka þessi mál í okkar eigin hendur.