Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

bann við olíuleit.

998. mál
[16:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður vísaði til þá segir í stjórnarsáttmálanum: „Ríkisstjórnin mun ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.“ Það mun ganga eftir, ríkisstjórnin mun ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Það er auðvitað margt á borði ráðuneytisins og það eru ýmsar leiðir færar til að ná þessu og mál þess efnis mun koma fram í haust.

Hv. þingmaður vísaði til þess sem við stefnum að, að við ætlum að vera jarðefnaeldsneytislaus. Það er það sem við ætlum að gera. Ég vona að hv. þingmaður taki það ekki illa upp vegna þess að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt, en mér finnst einhvern veginn að menn átti sig ekki alltaf alveg á stærðunum í þessu og hvað er að gerast. Á sama tíma — og nú gæti hv. þingmaður eða einhver sagt að ég sé hér að gagnrýna ríkisstjórnina og sjálfan mig, en við erum bara á þeim stað að okkur má ganga betur. Það eru gríðarleg vonbrigði og ég vil vekja athygli þingheims á því að núna hefur olíunotkun fjarvarmaveitna á Vestfjörðum aukist úr 210.000 lítrum í 2,1 milljón lítra á milli áranna 2021 og 2022. Þetta er tíföldum. Með öðrum orðum: Þegar rafmagnsbílaeigendur fara á Vestfirði, sem ég er vona að þeir geri mikið af, þá mega þeir eiga von á því, sérstaklega á ákveðnum árstíma, að þegar þeir hlaða bílana sína þá sé rafmagnið búið til úr olíu. Ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um það að við getum ekki haft hlutina með þessum hætti því að eins og hv. þingmaður lýsir svo vel, og það er stefna ríkisstjórnarinnar, þá erum við að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku. Allt það sem snýr að grænni orku, nokkurn veginn allt, jú, ég held bara allt, er þess eðlis að það tekur langan tíma að undirbúa það. Það þarf að vanda sig við framkvæmd og gera það með þeim hætti að það sé í mikilli sátt og jafnvægi. En það gerist ekki á einni nóttu. Þannig að á sama tíma og við höldum okkur svo sannarlega við það sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum, það verður hvergi hvikað frá því, þá er fleira í ríkisstjórnarsáttmálanum sem ég vona að sé góð samstaða um og það er það að við ætlum fyrst ríkja að verða jarðefnaeldsneytislaus. Það hljóta því að vera okkur öllum mikil vonbrigði þegar við sjáum í þessu tilfelli einn landshluta sem er í þeirri stöðu að hann er að verða út undan vegna þess að þar vantar græna orku. Og bara svo að ég verði ekki gagnrýndur of mikið fyrir að upplýsa um þetta, mér finnst bara rétt að þing og þjóð viti af þessari stöðu, þá erum m.a. að fara í jarðhitaleitarátak og erum búnir að setja það af stað út af þessu. Það tengist þessu með beinum hætti því að við erum líka í þeirri stöðu, virðulegi forseti, að tveir þriðju af hitaveitunum okkar horfa fram á mikinn vanda.

Við skulum deila áfram og vera ósammála um hluti en það er mjög mikilvægt að við séum öll meðvituð um þessa stöðu vegna þess að við þurfum að vinna okkur hratt úr þessu og þó svo að það geti stundum verið erfitt fyrir okkur að taka ákvarðanir þá er það alveg ljóst að ef við tökum ekki ákvarðanir þegar að þessum málum kemur þá munum við ekki ná þessum markmiðum. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lýsti hér ágætlega framtíðarsýninni sem er ekkert í langri framtíð, þetta er bara á morgun og hinn, þ.e. að við ætlum að vera jarðefnaeldsneytislaus. Þar þurfum við augljóslega að bretta upp ermar og ég hvet alla hv. þingflokka til að skoða þessi mál, setja sig vel inn í þau og móta sér stefnu um það hvernig við náum þessu því að við getum ekki gengið þannig fram að við tökum ekki ákvarðanir þegar kemur að því að vera með græna orku og ná þar af leiðandi ekki loftslagsmarkmiðum okkar.