Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[19:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við þetta góða mál sem er flutt af formönnum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi og þar með talið hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur. Það hefur auðvitað verið mjög ánægjulegt frá því að þetta hryllilega stríð hófst að skynja hversu einhuga stuðning við úkraínsku þjóðina má finna hér í þinginu og meðal almennings og það er mjög mikilvægt að tryggja áframhaldandi víðtækan stuðning bæði hér og erlendis.

Varðandi þetta tiltekna mál þá hefur komið fram að það er brýn þörf á færanlegu sjúkrahúsi sem verður það fjórða sem verður reist í Úkraínu en áður hafa þrjú verið fjármögnuð, að mér skilst. Þjóðaröryggi okkar Íslendinga byggist ekki síst á veru okkar og þátttöku í NATO en sem lítil, herlaus þjóð þá komum við ekki að stuðningi við Úkraínumenn með vopnum eða hergögnum. Okkar framlag er og á að vera í gegnum mannúðarstarf fyrst og fremst og með því að halda hátt á lofti þeim gildum sem vestræn ríki hafa komið sér saman um. Í þeim skilningi kemur þetta stríð okkur við. Og þótt það sé sannarlega úkraínska þjóðin sem blæðir fyrst og fremst skulum við ekki gleyma því að það beinist einnig gegn okkar dýrmætu gildum um lýðræði, frelsi, jafnrétti og þau verðum við og skoðanasystkini okkar einfaldlega að verja út í ystu æsar.