Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara.

1123. mál
[15:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég er hér ásamt fleiri þingmönnum að fara fram á það að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um árangur okkar í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara. Við erum að óska eftir heildstæðu yfirliti um hvernig börnum gengur í námi, hvernig þeim gengur í grunnskólum og hvernig þau skila sér í framhaldsskóla og háskóla eftir uppruna. Einnig er óskað eftir yfirliti um atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara, hvar þeir standa í launatíundinni og hver efnahagsleg og samfélagsleg áhrif erlendra ríkisborgara eru. Þá er óskað eftir umfjöllun um hlutverk og væntan árangur af nýju hlutverki samhæfingarstjóra í móttöku flóttafólks í forsætisráðuneytinu. Aldrei hafa fleiri erlendir ríkisborgarar búið hér á landi. Þetta er fólk sem kemur hingað til lands vegna þess að það vill búa á þessu fallega landi og taka þátt í okkar góða samfélagi. Það er full ástæða til að fara yfir þetta mál, átta sig á því hvar við erum að gera vel en líka hvar við getum gert enn betur.