Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[15:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Fyrir réttu ári samþykktum við hér á Alþingi stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Þeim tímamótum fylgjum við eftir hér með samþykkt aðgerðaáætlunar 2023–2027. Að baki þessum mjög svo jákvæðu skrefum er nokkur aðdragandi og liggur mikil vinna að baki, allt frá vel heppnuðu geðheilbrigðisþingi árið 2020, með aðkomu fjölda fólks og fulltrúa stofnana og samtaka, breiðri aðkomu hagaðila í víðtæku samráði. Það er þakkarverð vinna. Ég fagna sérstaklega þessum áfanga hér og þakka hv. velferðarnefnd gott starf og samstöðu þingsins í þessum mikilvæga málaflokki og ég hlakka til að vinna að framkvæmd þeirra fjölmörgu aðgerða sem við samþykkjum hér og með þeim breytingum og ábendingum sem meiri hlutinn leggur til. Ég vil líka taka fram að það er mjög brýnt að fjármagna sérnám geðheilbrigðisstétta sem hraðast.