Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[16:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á því að þakka samstarfsfólki mínu í atvinnuveganefnd fyrir vinnslu þessa máls og við höfum náð hér saman um bara ljómandi góðar breytingartillögur að mínu mati. Ég vil í ljósi umræðunnar nefna að aðgerðaáætlun kemur jú gjarnan í kjölfar þess að stefnan er sett, það er hefðbundið ferli. Ég vil líka nefna það hér að breytingar gerast hratt, ekki síst þegar kemur að lausnum er varða mælingar á ýmsum þáttum, af því að hér var m.a. nefnt að við ættum að fá upplýsingar um innihald matvæla. Ég styð eindregið að við eigum að leggja fjármuni í að það verði enn þá auðveldara fyrir fólk að lesa, ekki síst að geta helst skannað með símanum allt innihaldsefni. Þegar kemur að því að við höfum kolefnisspor sem styður við innlenda matvælaframleiðslu, því að það er ekki þannig núna að innlendir matvælaframleiðendur sitji við sama borð og þau erlendu matvæli sem hér eru flutt inn, eins og í kjöti, þá getum við eiginlega ekki sagt það með sanngjörnum hætti að við getum mælt það eins og staðan er. En það er sannarlega það sem koma skal.