Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður verðum sennilega að vera bara ósammála um það að taka þetta út úr hinni stefnunni, það hafi ekki verið rétt ákvörðun, alveg sama hvernig það var orðað. Það eru 17 ár sem á að vera hægt að nota til þess að uppfylla þessi skilyrði og ég ætla rétt að vona að við verðum búin að finna réttar leiðir fyrir þann tíma. En mig langar að tala um annan hlut sem tengist þessari stefnu. Þetta er að sumu leyti stefna sem setur háleit markmið og er að fjalla um atvinnugrein sem því miður mun eflaust þurfa að breytast á næstu áratugum vegna breyttra loftslagsskilyrði og annars. Í yfirlestri mínum á fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára þá virðist mér hins vegar skorta allt fjármagn til þess að framkvæma þessar aðgerðir. Þvert á móti er fjármagnið að lækka vegna þess að sértækar aðgerðir eru að hverfa og það er verið að gera breytingar á búvörusamningum. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að við séum ekki að fjármagna þetta nægilega til að ná þessum markmiðum, sérstaklega loftslagstengdu markmiðunum sem er m.a. bent á í fjármálaáætlun, að það eigi að vera orðinn 38% samdráttur í losun árið 2028. Í dag er hann 3%. Þannig að mig langaði sérstaklega að spyrja, af því að hv. þingmaður er líka í fjárlaganefnd, hvernig hún líti á þennan hluta, að ná þessu fram.