Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[18:49]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er sérkennilegt og ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er undarlegt verklag sem er haft í matvælaráðuneytinu. Ef það væri bara í þessu máli þá myndi maður kannski að horfa fram hjá því, en það var líka þannig í gær í matvælastefnunni að það var fátt um vörður á leiðinni. Síðan tel ég það líka vera áhyggjuefni fyrir þessa ríkisstjórn og verkstjórn hæstv. forsætisráðherra að það koma hér alls konar frumvörp sem stangast á. Við vorum hér að ræða t.d. raforkulög og þau ganga þvert gegn byggðastefnunni, þar er óskilgreindur kostnaður sem á að leggjast á dreifbýlið, og leggjast einnig gegn því að við náum fram þessari stefnu sem við erum að ræða hér í dag. Þetta er áhyggjuefni, sérstaklega þegar það eru frumvörp eða þingsályktunartillögur til umræðu í þinginu sem hafa það að markmiði að samþætta áætlanir, þá horfir maður upp á svona, ekki bara í dag heldur líka í gær. Það er örugglega tækifæri í að bæta þetta verklag og ég tek undir það sjónarmið sem kom fram í ræðunni að það færi betur á því að hafa markmiðin aðeins lágstemmdari en hafa einhverja leið að þeim.