153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að taka þetta mál á dagskrá og tala inn í tímann og um þær harkalegu upplýsingar sem berast af alvarlegu ástandi, ópíóíðafaraldri, eins og nefnt er. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu hér og það er þakkarvert.

Hv. þingmaður dró saman fjórar meginspurningar og ég ætla að reyna að halda mig við þær. Mér finnst að fyrsta spurningin: Hvernig skilgreinir ráðherra hugtakið skaðaminnkun? og svo: Við hvaða aðrar samfélagslegar áskoranir telur ráðherra að skaðaminnkunarnálgun geti náð árangri? hangi pínulítið saman. Ég get alveg viðurkennt það í upphafi, af því að hv. þingmaður dró fram hér að ég þekkti málaflokkinn ekki nægilega vel, að ég þarf að rýna af öllu afli inn í þetta umhverfi og þau úrræði sem við þurfum að taka til til að ná utan um þetta betur en við höfum gert. Það skal viðurkennt hér í upphafi. En skaðaminnkun vísar sannarlega til stefnu, verkefna og verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess endilega að hafa það að draga úr vímuefnanotkun sem eitthvert endanlegt markmið. Markmiðið er hins vegar að lágmarka skaðann. Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi, notandanum og samfélaginu í heild og hefur þannig sterka skírskotun til mannréttinda og byggir á grunnstoðum lýðheilsu. Þess vegna tengi ég þetta við fjórðu spurninguna, um samfélagslegu áskoranirnar og hvernig þetta getur gagnast okkur á öðrum vettvangi. Það er sannarlega þannig að samskipti og þjónusta sem byggir á skaðaminnkandi hugmyndafræði hefur það að leiðarljósi að mæta hverjum og einum af mennsku og virðingu og lagður er grunnur að því að mynda traust meðferðarsamband. Í fjölmiðlum hafa nokkrir fyrrum gestir Frú Ragnheiðar til að mynda lýst því hvernig samskipti á þessum forsendum við sjálfboðaliða verkefnisins hafa gert það að verkum að þau upplifðu sig ekki ein og á jaðri samfélagsins heldur fundu fyrir hlýju og kærleika. Þetta viðmót og samskiptin sem byggja á því er sambærilegt því sem þekkist í batamiðaðri hugmyndafræði í geðheilbrigðisþjónustu, sem dæmi út frá spurningunum. Því má segja að viðmót skaðaminnkunar eigi við alls staðar þar sem fólk er, notar vímuefni og þarf á þjónustu að halda. Skaðaminnkunin er þannig byggð á viðurkenningu þess að fjöldi fólks víða um heim heldur áfram að nota vímuefni þrátt fyrir jafnvel ýtrustu viðleitni í samfélaginu til að fyrirbyggja upphaf eða áframhaldandi notkun vímuefna.

Það leiðir hugann að því sem hv. þingmaður kom inn á um virkni á áhættuhegðun með bönnum og refsingum. Aðgengi að gagnreyndri meðferð er alltaf mikilvæg fyrir fólk með vímuefnavanda en það eru ekki allir sem treysta sér í það á tilteknum tímapunkti eða hafa viljann til þess. Því er þörf á valkosti fyrir fólk sem notar vímuefni sem hjálpar því að lágmarka áhættu á skaða af áframhaldandi notkun. Þetta er eitt af grundvallarsjónarmiðum skaðaminnkunar og mikilvægt að hafa í huga þegar við horfum til allra þeirra úrræða sem við getum gripið til innan þessa ramma, hvernig við hugsum þetta.

Ég hugsa að ég komi hér síðast að starfshópi um skaðaminnkun og spurningunni um hvort ráðherra telji að hægt sé að ná markmiðum skaðaminnkunar án þess að afnema refsingar fyrir neysluskammta og þá hvernig. Ég hef rýnt vel í þetta og ég var með starfshóp í gangi, sannarlega í þeim tilgangi að ná utan um það, skilgreiningu á neysluskammti. En ég held að það sé mjög mikilvægt að horfa á lykilhugtökin í þessu, refsinguna fyrir glæp og kvarða til lögleiðingar og allt þar á milli, það er eitthvað sem heitir afglæpavæðing, alveg eins og við erum með regluverk í kringum áfengi og tóbak. Þess vegna eigum við að reyna að ná árangri á þessu sviði og í sem mestri sátt. Það eru fjölmörg úrræði sem ég ætla að nýta hér seinni ræðu mína í að fara yfir.