153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:33]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir ræðu hans og öðrum ræðumönnum líka. Það er mikilvægt að við ræðum þessi mál hér sem snúa að því fólki sem hefur átt sér fáa málsvara í samfélaginu. Þessi umræða er mikilvæg. En það er líka mikilvægt og gott framtak sem er þess virði að minnast á hér að síðastliðinn mánudag kom margt okkar fremsta tónlistarfólk fram á tónleikum í troðfullum Eldborgarsal Hörpu þar sem söfnuðust 38 milljónir fyrir skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins. En það var ekki síður mikilvægt að þúsundir, líklega tugþúsundir Íslendinga horfðu á tónleikana og fengu upplýsingar og lærdóm um skaðaminnkun og ópíóíðafaraldurinn sem nú geisar hérlendis og víða um lönd. Það fólk sem stóð að þessum tónleikum á þakkir skildar.

Sá sem hér stendur hefur fyrir löngu komist á þá skoðun að fíkniefni séu heilbrigðis- og samfélagsvandi sem á ekki að refsa fyrir — fyrir löngu síðan. Ég veit að það eru skiptar skoðanir hér inni um þau mál en viðhorf þjóða allt í kringum okkur eru að breytast og þau munu breytast hér líka. Við vorum meðal síðustu þjóða að horfast í augu við að bannstefnan sem rekin var gegn vínanda við upphaf 20. aldar virkaði ekki. Það tók okkur 74 ár að hætta bannstefnu gegn vínanda að fullu. Víðast annars staðar í löndum sem við berum okkur saman við stóð sú arma tilraun að hámarki í 15 ár. Ég vona að við verðum ekki síðust þjóða til að horfast í augu við að bannstefnur virka bara alls ekki. En á meðan við erum á þessum stað verðum við að koma til móts við það fólk sem ánetjast (Forseti hringir.) þeim efnum sem enn eru ólögleg.

Ég vil sérstaklega hrósa heilbrigðisráðherra og ráðuneytinu fyrir að hafa dreift 1.730 skömmtum af (Forseti hringir.) naloxón, líkt og kom fram í fréttum í gær. (Forseti hringir.) Þessi skref og mörg önnur færa okkur nær því að breyta umræðunni.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á takmarkaðan ræðutíma í sérstökum umræðum.)