153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:36]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, þakka fyrir það sem ég hef fengið að heyra nú þegar og það sem ég á eftir að heyra. Ég hef sterka skoðun á þessu máli og hún er samhljóma skoðun Halldóru Mogensen, að þetta er vandamál. Hvernig á að takast á við það er önnur saga. Ég vil líkja þessu svolítið við það að þegar fólk teflir skák og skákin fer í bið þá fara þeir sem eru að tefla heim og tefla skákina til enda með aðstoðarmönnum og fara svo aftur til baka og klára skákina. Þannig sé ég þetta vandamál fyrir mér, við erum ekki búin að tefla skákina til enda. Það er ekki bara einföld lausn að afglæpavæða eða bjóða skaðaminnkun, því að hvað er skaðaminnkun? Ég var á ráðstefnu um daginn þar sem fíkill kom og hélt ræðu og sagði okkur frá því að hann lifði lífi sínu þannig: Þau eru par sem búa saman í íbúð á vegum borgarinnar og þau fá örorkugreiðslur. Þau fara á morgnana til læknis og fá morfínskammt. Svo eru þau bara í vímu allan daginn og hafa engan áhuga á því að láta renna af sér. Er þetta skaðaminnkun? Ég held ekki. Skaðaminnkun þarf að vera hvetjandi fyrir fólk til að hætta, hvernig sem við förum að því. Við þurfum að finna út úr því með því að fara heim og tefla skákina áður en við förum af stað og klárum hana.