153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Já, þegar við erum að tala um hugtakið skaðaminnkun þá getum við skilgreint það og togað á alla kanta. Ef við hugsum þetta út frá einstaklingnum, ef við hugsum þetta út frá fjölskyldunum og samfélaginu í heild, þá hlýtur eitt form skaðaminnkunar að vera öflugt meðferðarstarf. Þetta þarf að vera fjölbreytt. Það þarf að vera hægt að mæta veiku fólki, fíklum og alkóhólistum á götunni þar sem það er hverju sinni og veita því viðeigandi úrræði þar. En það hlýtur alltaf að vera það sem kemur kannski í veg fyrir mesta skaðann, þ.e. að koma fólki á beinu brautina aftur, vegna þess að það gefur fólki kost á að öðlast betra líf, ekki bara fyrir það sjálft heldur líka fyrir fjölskylduna og það hefur síðan aftur jákvæð áhrif á samfélagið í heild sinni.

Eitt sem ég vildi líka nefna í því samhengi er að oft þegar við erum að tala um þennan viðkvæma sjúklingahóp erum við með nokkurs konar viljaglugga sem getur varað í stutta stund þar sem hægt er að sannfæra viðkomandi um að meðferð sé rétta lausnin. Menn geta kannski í einhvern smá tíma verið móttækilegir fyrir því af því að eitthvað hefur komið fyrir sem kallar á þá hugsun. Hins vegar erum við stundum á þeim stað að þessi gluggi getur lokast svolítið fljótt. Það er bara þannig á Íslandi að meðferðarúrræðin sem eru í boði eru það fjársvelt að þessi gluggi nýtist ekki sem skyldi og það höfum við mörg dæmi um, til að mynda frá sjúkrahúsinu Vogi.

Síðan langaði mig aðeins að segja eitt varðandi það að menn tala stundum um að það sé svo flókið fyrirbæri að skilgreina neysluskammta. Við erum samt að því í löggjöf og öllum mögulegum hlutum hér á þingi, daginn út og inn, að búa til skilgreiningar yfir hina ýmsu hluti, og við vitum oftast að þessar skilgreiningar eru ekki fullkomnar og það verða jaðartilfelli og það verður eitthvað sem hægt er að segja að orki tvímælis og þar fram eftir götum. Við erum með svona hluti í skattkerfinu okkar, almannatryggingakerfunum okkar, úti um allt. Af hverju er svona flókið í þessu (Forseti hringir.) að búa til eitthvert hugtak sem þó a.m.k. yrði til þess að líf einhverra fengi kannski betri farveg en væri hins vegar ekki hin eina sanna fullkomna lausn?