153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að mæla hér á eftir fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, stuðningur við einkarekna fjölmiðla. Ég stend hér sem staðgengill hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem er í 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Áður en ég mæli fyrir nefndarálitinu vil ég segja nokkur orð frá eigin brjósti.

Það þarf kannski ekki að hafa mörg orð um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi og þróunina sem þar hefur orðið á undanförnum árum og áratugum. Ég þarf heldur ekki að tíunda hér í þessum ræðustól mikilvægi sterkra óháðra fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Í nágrannalöndunum okkar, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, hafa fjölmiðlar lengi verið styrktir af hinu opinbera með margvíslegum hætti, bæði beint og óbeint. Norðmenn og Svíar hafa veitt framleiðslu- og dreifingarstyrki. Finnar hafa lagt sérstaka áherslu á að styrkja fréttablöð sem eru gefin út á tungumálum minnihlutahópa þar í landi og í Danmörku hefur sérstakt styrkjakerfi verið við lýði um langt skeið þar sem bæði prentmiðlar og netmiðlar fá styrki til framleiðslu ritstjórnarefnis. Auk þess hafa verið veittir verkefnastyrkir vegna stofnunar nýrra fjölmiðla og ýmiss konar þróunarstyrkir. Á hvaða sjónarmiðum byggir svona ríkisstuðningur? Jú, hann byggir á sjónarmiðum um virkt og raunverulegt tjáningarfrelsi og prentfrelsi og mikilvægi þess að ríkisvaldið stuðli að upplýstri og opinni umræðu og öflugum fréttaflutningi. Fjölmiðlar eigi heldur ekki að vera einungis upp á náð og miskunn fjársterkra aðila í samfélaginu komnir. Að baki þessu öllu hefur um leið legið stefnumótun um réttindi og skyldur fjölmiðla, um almannaþjónustuhlutverk fjölmiðla og allt snýst þetta um að efla tjáningarfrelsi og um leið lýðræðið og lýðræðisleg skoðanaskipti.

Hæstv. menningarráðherra Lilja Alfreðsdóttir hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir því að á Íslandi sé veittur fjölmiðlastuðningur með sams konar hætti og hefur tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Hæstv. ráðherra hefur þurft að slást við þingmenn Sjálfstæðisflokksins um þetta. Þessi núningur á stjórnarheimilinu hefur sést langar leiðir og afleiðingin af þessu hefur auðvitað verið sú að einkareknum fjölmiðlum hefur verið haldið í ákveðnu limbói. Það hefur vantað allan fyrirsjáanleika, styrkirnir verið veittir til skamms tíma í senn. Þetta er allt saman bagalegt en það breytir ekki því að ég held að það hafi verið raunverulegur og einlægur vilji að baki hjá hæstv. menningarráðherra að koma upp sterku og fyrirsjáanlegu styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla, faglegu kerfi sem byggir á hlutlægum viðmiðum og fyrirsjáanlegum leikreglum og þá helst kerfi sem tryggir fjölbreytni og fjölræði en dælir ekki bara fé til þeirra stærstu og sterkustu. Það er augljóst ef maður skoðar bara greinargerðir þeirra frumvarpa sem komið hafa frá hæstv. ráðherra á undanförnum árum, t.d. frumvarpi til laga nr. 58/2001, um stuðning við einkarekna fjölmiðla, að þetta er sá vilji sem hefur legið til grundvallar þessari vinnu í ráðuneytinu. Það er líka ljóst ef við skoðum greinargerð þess frumvarps sem við ræðum hér í dag. Þar er talað um mikilvægi fyrirsjáanlegs stuðnings við fjölmiðla og að litið verði áfram sérstaklega til þeirra stuðningskerfa sem eru við lýði á hinum Norðurlöndunum. Hæstv. ráðherra lýsti því sérstaklega í fyrra á málþingi um opinberan stuðning við einkarekna fjölmiðla að hún vildi fara dönsku leiðina í fjölmiðlastuðningi. Hún talaði sjálf um að hafa átt í átökum um þessi mál við þingmenn og átök hefðu átt sér stað milli stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherra Lilja Alfreðsdóttir sagði að málið hefði verið henni erfitt sem ráðherra.

Nú liggur hérna fyrir nefndarálit um frumvarp hæstv. menningarráðherra frá meiri hlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Ég verð nú að viðurkenna það að ég rak upp stór augu þegar ég las þetta nefndarálit því að það sem hefur gerst hérna er að þingmenn Framsóknarflokksins og þingmaður Vinstri grænna hafa tekið upp stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Það sem gerist hérna í þessu nefndaráliti, virðulegi forseti …(BHar: Góða nefndaráliti.) Já, ég heyri gríðarlega ánægju frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, vissulega, bæði hér í dag og í gær, enda átti hún greinilega vinninginn í þessu máli en hinir flokkarnir drógu stutta stráið. Það sem gerist í þessu nefndaráliti er að þingmenn Framsóknarflokksins og þingmaður Vinstri grænna taka mjög afgerandi stöðu gegn þeirri stefnu sem hæstv. menningarráðherra, hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, hefur barist fyrir á undanförnum árum. Í nefndarálitinu segir nefnilega orðrétt, með leyfi forseta:

„Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Hvað á eiginlega að lesa í þessa orð? Trúa sem sagt hv. þingmenn því að fjölmiðlar á hinum Norðurlöndunum sem þegið hafa styrki samkvæmt hlutlægum viðmiðum og fyrirsjáanlegum leikreglum um áraskeið, jafnvel áratugaskeið, verði þá bara ófærir um að veita stjórnvöldum aðhald? Ef maður tekur það aðeins lengra, er það þá skoðun þessara þingmanna að hæstv. menningarráðherra hafi á undanförnum árum verið að beita sér fyrir aðgerðum sem eru til þess fallnar að draga tennurnar úr aðhaldshlutverki fjölmiðla? Og ef svo er, ef beinir styrkir skemma einhvern veginn fyrir aðhaldi, hvers vegna á þá ekki bara nákvæmlega það sama á við um óbeina styrki, skattstyrki? Þetta eru auðvitað bara einhver vitleysa, einhver svona frjálshyggjudella og kemur ekkert á óvart þó að hún komi frá Sjálfstæðisflokknum en ég held að hér hafi hv. þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins látið plata sig út í einhverja vitleysu. Raunar fannst mér þegar ég átti orðaskipti um þetta við hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur í gær, hún í rauninni ekki standa neitt voðalega þétt með þessari furðuafstöðu í nefndarálitinu, skiljanlega. Hv. þingmaður gerði eiginlega ekki minnstu tilraun til að rökstyðja eða réttlæta þetta furðusjónarmið sem kemur þarna fram og ég las upp rétt í þessu, heldur sagði hv. þingmaður

„Beinir styrkir geta verið góðir. Það fylgja öllum kostunum, því sem er talað um hér, kostir og gallar. Við teljum í nefndinni að hinir kostirnir hafi kannski ekki verið skoðaðir nægilega vel. Eftir að það hefur verið skoðað þá kannski kemur bara í ljós að beinir styrkir séu besti kosturinn. En við þurfum bara að ræða þetta allt og við viljum að það sé rætt. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra er á þeirri skoðun að þetta gæti verið besta leiðin. Ég vil sjá þetta líka, ég vil að fjölmiðlastefnan verði rædd hér og ég er mjög spennt að sjá hvernig hún kemur út úr samráðinu sem verður í sumar. Þá vil ég taka mjög góða umræðu og ef niðurstaðan verður sú að beinu styrkirnir eru bestir þá mun ég fara á þá skoðun.“

Mér heyrist út frá þessu að við séum komin algerlega á byrjunarreit þegar kemur að stefnumótun um fjölmiðlastuðning á næstu árum. Það er einhvern veginn bara allt opið nánast. Við ætlum bara að skoða þetta allt saman í rólegheitunum. Ráðherra er á einhverri skoðun. Kannski kemur í ljós að hún hefur rétt fyrir sér, kannski ekki. Það komu umsagnaraðilar sem höfðu alls konar skoðanir. Nú er þetta bara allt í einu allt opið.

Í því nefndaráliti sem ég las upp úr kemur náttúrlega fram mjög skýr afstaða gegn beinum stuðningi. Það er í rauninni þvert á það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins, að það þurfi að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika og byggja áfram á þeim sjónarmiðum sem hafa legið til grundvallar fjölmiðlastuðningi á hinum Norðurlöndunum.

Að því sögðu ætla ég að flytja hérna þetta ágæta nefndarálit frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Fyrsti minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar tekur undir markmið frumvarpsins, að treysta rekstur einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Staða einkarekinna fjölmiðla hefur sjaldan verið viðkvæmari, en á þessu ári hafa fjórir fjölmiðlar hætt rekstri. Var ljóst af máli þeirra gesta sem komu fyrir nefndina að stuðningur við einkarekna fjölmiðla á undanförnum árum hafi skipt sköpum fyrir rekstur þeirra. Óþarfi er að orðlengja um mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið en ekki síður eru fjölmiðlar mikilvægir fyrir menningu landsins og íslenska tungu sem einnig á undir högg að sækja í fjölþjóðlegu fjölmiðlaumhverfi. 1. minni hluti vill árétta að mikilvægt er að fyrirsjáanleiki ríki varðandi stuðningskerfi við fjölmiðla. Það styrkjakerfi sem nú hefur verið um skamma hríð á Íslandi hefur verið viðhaft um ára- og áratugaskeið í nágrannaríkjum okkar með góðum árangri eins og nefndarfólk í allsherjar- og menntamálanefnd varð áskynja í heimsóknum sínum til Danmerkur og Noregs í vetur. Þar eru skilyrði rekstrarstuðnings fjölbreyttari en hér hefur verið og telur 1. minni hluti ýmislegt sem þar tíðkast til eftirbreytni.

Fyrsti minni hluti áréttar mikilvægi innlendrar dagskrárgerðar fyrir íslenska tungu og tekur því undir með meiri hluta nefndarinnar um að hugmyndir ráðherra þess efnis að skylda streymisveitur til að leggja hluta áskriftartekna í innlenda dagskrárgerð séu góður kostur. Jafnframt bendir 1. minni hluti á að hægðarleikur væri, ef vilji væri fyrir hendi, að leggja til sérstakan stuðning við þær sjónvarpsstöðvar sem texta innlent sjónvarpsefni sitt sem og talsetja það sem erlent er. Með stuðningi við textun á innlendu efni væri aðgengi að sjónvarpsefni gert greiðara fyrir heyrnarskert fólk, eldra fólk, börn og fólk af erlendum uppruna. Tekur 1. minni hluti þannig undir með ÖBÍ – réttindasamtökum. Þá væri stuðningur vegna talsetningar mikilvægur fyrir íslenska tungu.

Töluverður tími nefndarinnar fór í að ræða tekjumöguleika fjölmiðla á Íslandi. Rætt var um auglýsingatekjur og fyrirferð RÚV á þeim markaði en einnig um það hvernig innlendir fjölmiðlar sitja við annað borð en þeir erlendu þegar kemur að því hvað má auglýsa. Jafnframt var þó nokkuð rætt um hvort rétt væri að búa til einhvers konar skattaívilnun fyrir fjölmiðla, en það þarf að ígrunda vel, enda má ætla að tekjuskattsgreiðslur fjölmiðla sem reknir eru árum saman með tapi séu óverulegar. Annars staðar á Norðurlöndunum er þekkt að gerð sé sú krafa til fjölmiðla sem sækja um styrki að þeir starfræki að hluta áskriftarmiðil, hvort sem er að sjónvarps- eða prentefni, og telur 1. minni hluti vert að benda ráðherra fjölmiðlamála á þennan möguleika. 1. minni hluti tekur ekki undir tillögur meiri hluta nefndarinnar um að leggja eigi niður auglýsingadeild RÚV án þess að fyrir liggi hvernig það eigi að gerast og hvað eigi að koma í staðinn. Áralöng umræða hefur átt sér stað varðandi fyrirferð RÚV á markaði sem verður ekki afgreidd í nefndaráliti með því að leggja það til að ein einstök deild stofnunarinnar, nánar tiltekið auglýsingadeildin, verði lögð niður. Sú tillaga meiri hlutans er hvorki nægilega ígrunduð né er hún studd nokkrum gögnum eða hugmyndum um hvaða áhrif slíkt eigi að hafa á markaðinn. Hvorki liggur neitt fyrir um það hvort slíkt hafi áhrif á auglýsingamarkaðinn né liggur nokkuð fyrir um að við niðurlagningu deildar innan RÚV aukist tekjur annarra fjölmiðla.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar segir annars vegar að mikilvægt sé að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla og hins vegar að horfið verði frá beinum styrkveitingum til fjölmiðla. 1. minni hluti bendir á að þetta sé dæmi um það hvernig þrír stjórnarflokkar virðist sigla í austur og vestur þegar kemur að viðhorfi til mikilvægis fjölmiðla í lýðræðissamfélagi og hvernig megi efla þá.

Það var rauður þráður í samtali þingmanna í heimsóknum til Danmerkur og Noregs að fyrirsjáanleiki stuðningsins væri lykilatriði. Þannig væri það ekki ákjósanlegt að fjölmiðlar þyrftu, líkt og verið hefur hér á landi, að fara bónveg til stjórnvalda á hverju ári í von um styrkveitingu. Það væri hvort tveggja í senn vont fyrir reksturinn, atvinnuöryggi fjölmiðlafólks og kæmi niður á sjálfstæði fjölmiðla sem þurfa með þessari aðferð að stóla á velvild hins pólitíska valds þegar kemur að styrkúthlutunum.

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að hún ætli sér að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Í framhaldinu kemur frá sama meiri hluta að horfið verði frá beinum styrkveitingum til fjölmiðla og er það í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Án þess að nokkrar aðrar hugmyndir liggi á borðinu verður 1. minni hluti að mótmæla þessari framsetningu harðlega. Það liggur ljóst fyrir að fjölmiðlamarkaðurinn er nú þegar mjög viðkvæmur hér á landi sem og um allan heim. Var það samdóma álit í umsögnum og máli gesta að mikilvægt væri að koma á fót víðtæku styrkjaumhverfi og auka fyrirsjáanleika. Með orðum meiri hlutans í nefndaráliti um niðurfellingu beinna styrkja er verið að ganga í þveröfuga átt og minnka fyrirsjáanleika til nánustu framtíðar. Þeir sem nú hyggja mögulega á að setja á laggirnar fjölmiðil kunna að bíða og sjá hvaða stjórnmálaflokkur fær að ráða för við stefnumótun fjölmiðla á næstunni. Sundurlyndi stjórnarflokkanna er þannig að búa til sjálfstætt vandamál á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Að framangreindu virtu styður 1. minni hluti efni frumvarpsins en hvetur jafnframt ráðherra fjölmiðlamála til að hraða vinnu við heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Svo mörg voru þau orð úr nefndaráliti 1. minni hluta í allsherjar- og menntamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.