Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ætla líka að þakka fyrir samstarfið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það hefur verið mjög gagnlegt að hafa hv. þingmann þar með okkur, svolítið sem fulltrúa auglýsenda, lýsandi mikilvægi þess að geta náð til þeirra sem hlusta á og horfa á Ríkisútvarpið. Eins og hv. þingmaður lýsir því þá telur hann að vandamálið sé í rauninni bara breytt neysluform ungs fólks, ef ég skil hann rétt. Það eru samfélagsmiðlarnir og podköst eins og hann nefnir og ég get alveg tekið undir það, ég held að það séu allir sammála um að stór hluti af ástæðunni fyrir þessum breytingum sem hafa orðið séu tæknibreytingar og breytt neyslumynstur fólks í dag. En spurningin sem við stöndum frammi fyrir er: Hvernig bregðumst við við því? Ég hygg að ég og hv. þingmaður og við flest hér inni séum sammála um mikilvægi fjölmiðla og hversu stórt hlutverk fjölmiðlar spila í lýðræðislegu samfélagi. Þannig að spurningin sem ég ætla að spyrja hv. þingmann, og ég ætla að reyna að svara á eftir í ræðu minni, er: Hver heldur hv. þingmaður að sé lausnin? Hvernig bregðumst við við þessu breytta neyslumynstri til þess að renna styrkum stoðum undir þá fjölmiðla sem hér á Íslandi þrífast?