153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst er auðvitað það að segja að það kemur ekki til af góðu að við styðjum þetta frumvarp. Það er af því að stjórnvöld hafa ekki gengið til þess verks að laga rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðlanna. Þetta veit ég að hv. þingmaður er sammála mér um. Það kemur ekki til af góðu að þetta frumvarp er til meðferðar enn einu sinni efnislega. Það er auðvitað þannig að þessi stuðningur sem kemur til einkareknu miðlanna á grundvelli þessa frumvarps, það er næstum því þannig að hægt sé að kalla þetta skaðabætur. Skilyrðin eru svo ójöfn og rekstraraðstaða einkareknu miðlanna eru svo broguð við hliðina á samkeppni við Ríkisútvarpið að hún er í raun hálfóbærileg. Þess vegna erum við í þeirri stöðu að geta ekki annað en stutt við þetta frumvarp, jafn vont og mér þykir það efnislega.

En til að svara spurningunni um skýrslu nefndarinnar sem Björgvin Guðmundsson fór fyrir 2018 um bætta stöðu einkarekinna miðla, af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um auglýsingarnar, hvort það ætti að rýmka eða auka frelsi til auglýsinga á vöru eða þjónustu sem hingað til hefur verið bannað að auglýsa, þá er það auðvitað þannig að þetta hlýtur að koma inn í þessa heildarendurskoðun gagnvart til að mynda erlendu miðlunum því að þessar auglýsingar blasa við okkur út um allt. Áfengi og tóbak, við getum ekki horft á fótboltaleik öðruvísi en að sjá Carlsberg og hvað þetta heitir allt saman auglýst leikina langa. Þannig að auðvitað verðum við að nálgast þetta út frá einhverjum raunheimum og því hvernig þróunin hefur verið. Mér sýnist á öllu að þetta bann verði í dag fyrst og fremst til þess (Forseti hringir.) að þrengja að sérstaklega hinum einkareknu fjölmiðlum.

Að öðru leyti held ég að ég geti sagt að ég taki undir allar tillögur sem koma fram (Forseti hringir.) í þessari skýrslu og tel reyndar að það hefði mátt bæta í þar.