Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið og get alveg verið sammála honum í því, ég vildi svo gjarnan að við værum komin með heildstæða stefnu og búin að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla þannig að hér væri lífvænlegra fyrir frjálsa fjölmiðla að starfa. Það er samt rétt að geta þess að það er ekki eins og þetta sé einangrað íslenskt vandamál. Þetta er auðvitað verkefni sem er til komið vegna þess sem við ræddum hér áðan, breytts notkunarmynsturs og tækni. Þannig að við erum að sjálfsögðu ekki eina þjóðin sem stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að tryggja rekstrarumhverfi fjölmiðla.

En ég tek heils hugar undir og ég bara segi að það er gaman að sjá að fólk er þó sammála um þetta. Vonandi getur það fært okkur í þá átt að við getum líka sameinast um þær leiðir sem til þarf til að ná utan um stóra verkefnið. En alveg eins og ég sagði líka í fyrra andsvari er alveg ljóst að enn þá ber töluvert á milli í því. Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýn og ég ætla að leyfa mér að vona, miðað við það sem hv. þingmaður segir hér, að við eigum kannski hauk í horni þar í stuðningi við þetta bætta rekstrarumhverfi.

Hv. þingmaður vísaði líka áðan í þingsályktunartillögu sem Miðflokkurinn hefur flutt hér og er einmitt til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd. Mig langar að segja að mér finnst það áhugaverð hugmynd sem ætti kannski að setja inn í þetta púkk núna þegar kemur að því að móta þetta heildarumhverfi. Ég held að svarið við spurningum eins og þessari geti ekki verið einhver ein breyting eða einhver ein lausn. Þetta er fjölþættur vandi og þar af leiðandi fjöldamargar lausnir sem við þurfum að bregðast við með.

Hv. þingmaður hefur talað mjög gegn fjölmiðlanefnd og leggur hér til að sú nefnd verði bara lögð niður. Ég minnist þess ekki að það hafi verið tillaga í þessari ágætu skýrslu. Ég held að við kunnum að hafa ýmsar skoðanir á þeim verkefnum sem þar eru undir en ég bara vona að hv. þingmaður geti stutt þær tillögur (Forseti hringir.) sem koma vonandi fram í kjölfarið þannig að við getum staðið keik og byggt upp (Forseti hringir.) ákveðið öryggi á þessum markaði og styrkt rekstrarumhverfi fjölmiðla.