Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hugsa að nefndinni frá 2018 hafi ekki — nú man ég ekki, ég náði ekki að fletta því upp í fljótu bragði hvenær fjölmiðlanefnd var sett á laggirnar en ætli mönnum hafi verið orðið jafn ljóst og nú er að nefndin væri í besta falli gagnslaus en sennilega til óþurftar.

Varðandi það að hv. þingmaður eigi í þessari vinnu, sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hauk í horni í verkefnunum fram undan þá verður það svo sannarlega þannig en þá verður þessi ágæta ríkisstjórn að fara að gera eitthvað. Eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, og kemur fram í nefndarálitinu, þá er það auðvitað fyrir neðan allar hellur að við lok sjötta þingvetrar þessarar ríkisstjórnar sé svarið enn þá þessi krampakenndu viðbrögð. Það er alveg ömurlegt. Þetta er það sem einkareknum fjölmiðlum er boðið upp á á meðan Ríkisútvarpið – sjónvarp fær 8.000 milljónir á ári. Það er ekki boðlegt. En ef stjórnarflokkarnir koma fram með eitthvað sem vit er í munu þeir svo sannarlega eiga hauk í horni í mér og þingflokki Miðflokksins. Ég er hóflega bjartsýnn, ég er eiginlega ekki bjartsýnn, en ég vona svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér hvað það varðar. Ég ætla hér með að leyfa mér að spá því að við munum standa hér á sama tíma að ári og afgreiða sambærilegt frumvarp en mikið vona ég að ég hafi rangt fyrir mér.