Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um framlengingu á styrkjum til einkarekinna fjölmiðla, bráðabirgðaákvæði sem hæstv. ráðherra mælti fyrir einhvern tímann fyrir síðustu áramót og hefur verið inni í nefndinni síðan. Það er kannski ástæða til að segja það strax hér — og ég mun örugglega í minni ræðu tala svolítið vítt og breitt líka um fjölmiðla vegna þess að vinnan hefur auðvitað litast af því — að það er ekki hægt að horfa alveg einangrað á þetta verkefni, þ.e. rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla, og hvorki segja að styrkveitingar úr ríkissjóði séu einhver lausn eða að það að taka RÚV af auglýsingamarkaði sé eina lausnin eða eitthvað annað sem fólk hefur kastað hérna fram. Það þarf heildstæða nálgun á þetta verkefni og þá verður að horfa til allra þátta.

Mig langar, virðulegur forseti, að byrja á að ítreka hversu mikilvægir fjölmiðlar eru lýðræðissamfélagi. Á síðustu árum og áratug höfum við mögulega gleymt því vegna þess að við höfum lifað þannig tíma að við teljum kannski frelsið og lýðræðið bara svo sjálfsagt. En innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur svo sannarlega á að lýðræði, frelsi, alþjóðalög, mannréttindi eru bara ekki sjálfsagður hlutur og við erum enn að berjast fyrir því. Fjölmiðlar spila lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi. Þess vegna er það skoðun mín að ekki sé hægt að horfa á fjölmiðla eins og hvert annað fyrirtæki úti í bæ. Það eru hreinlega önnur lögmál sem eiga við þegar um er að ræða fjölmiðla. Þá held ég líka að það sé mikilvægt að horfa til þess að fjölmiðlun hefur breyst mjög á síðustu árum. Nú eru flestir með síma í vasanum sem getur virkað eins og fjölmiðill. Fólk er með sínar samfélagsmiðlasíður og getur komið áleiðis sínum skoðunum og sjónarmiðum með mjög auðveldum hætti sem var síður hægt fyrir einhverjum árum síðan. Fjölmiðlar geta því ekki verið bara einhvers konar miðill sem kemur áleiðis skoðunum og sjónarmiðum fólks. Þegar ég er að tala um fjölmiðla þá er ég að tala um ritstýrða fjölmiðla þar sem á sér stað vinnsla frétta, þar sem á sér stað upplýsingaöflun og vinnsla og þar sem skoðanir aðila komast á framfæri.

Sem formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar ákvað ég í samvinnu við nefndina síðasta vor að við skyldum byrja þennan þingvetur á því að fara í fræðsluferð til Noregs og Danmerkur. Þar voru undir tvö mál sem ég tel bæði mjög mikilvæg og vissi að yrðu stór viðfangsefni þessarar nefndar á þessu ári. Það voru annars vegar útlendingamál og hins vegar fjölmiðlamál. Bæði í Noregi og Danmörku er heildstæð umgjörð og hún er með ríkisafskiptum. Þar er ríkisstuðningur við miðla en þar eru líka ríkissjónvörp eða útvörp og meira að segja fleiri en ein eitt slíkt fyrirtæki. En það er mjög mismunandi hvernig Norðurlöndin, sem kannski er eðlilegast að við berum okkur saman við, hafa búið til þetta umhverfi. Það eru annars vegar beinir styrkir en það eru líka skattalegar ívilnanir. Einhverjar af ríkissjónvarpsstöðvunum eru á auglýsingamarkaði, aðrar ekki. Í einhverjum tilfellum rekur ríkið reyndar líka annan miðil sem virkar þá þannig að hann getur verið á auglýsingamarkaði. Þannig að samsetningin er mjög breytileg.

Auðvitað er það þannig í nágrannalöndum okkar eins og alls staðar í heiminum að það glíma allir við þessa sömu áskorun, með aukinni tæknivæðingu og samfélagsmiðlum og breyttu neyslumynstri ungs fólks, að neysla okkar á fréttamiðlum hefur breyst. Við sjáum það mjög vel hjá ungu fólki. Ég verð að viðurkenna að mér fannst mjög áhugavert í heimsókn okkar í Noregi að átta okkur á því hvernig þar virðist hafa tekist að búa til þá hefð að fólk borgi fyrir miðlana sína og það er eitt af skilyrðunum í þeirra styrkjaumhverfi að það séu áskriftarmiðlar. Það ekki í Danmörku. Aðferðirnar eru ýmsar en það er alveg ljóst að það er áskorun fyrir lýðræðissamfélagið að tryggja að hér séu fjölmiðlar, ritstýrðir fjölmiðlar, og ekki síður að reyna að leggja okkar af mörkum til að fólk noti þessa miðla, nýti sér slíka miðla.

Eins og ég hef farið yfir hefur þetta svakalegt gildi og skiptir bara sköpum fyrir lýðræðið. Vegna þess að ég hef svolitla reynslu af því að fara í kosningaeftirlit þá er einn stærsti hlutinn af kosningaeftirliti alltaf að horfa til þess hvernig fjölmiðlarnir eru. Eru þeir raunverulega frjálsir og hvernig starfa þeir í aðdraganda kosninga? Það er engu logið um að mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið er alveg gríðarlega mikið. Svo búum við auðvitað líka við það hér á þessari eyju, með okkar ylhýra ástkæra tungumál, að málsvæðið okkar er einstaklega lítið þannig að fyrir þá aðila sem hér eru að framleiða, hvort sem það eru fréttir eða eitthvert efni á íslenskri tungu, er samkeppnisstaðan allt önnur heldur en á stærri málsvæðum. Þess vegna til að mynda höfum við byggt upp stuðning við íslenskar bækur, vegna þess að við áttum okkur á mikilvægi þess að hér séu gefnar út bækur á íslensku. Stjórnvöld hafa ákveðið að það þurfi að vera einhvers konar hvatar til að tryggja slíka útgáfu. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég er talsmaður þess að við horfum til slíkra lausna þegar kemur að fjölmiðlum.

Eitt af því sem er alltaf nefnt í umræðu um stöðu fjölmiðla eru erlendir risar, hvort sem það eru veitur eða samfélagsmiðlar. Það er mjög eðlilegt og bara réttlætismál að þeir sem með einhverjum hætti koma inn á svona markað búi við sömu rekstrarskilyrði og þeir sem starfa hér. Þá er ég að vísa í að það er auðvitað eðlilegt að streymisveitur á borð við Netflix, ef við tökum það sem dæmi sem flestir þekkja, búi við sömu skilyrði og til að mynda streymisveitur hjá Símanum. Því miður er það ekki svo og það hefur margoft verið bent á að það sé eitt, og þá ítreka ég bara að það sé eitt, af því sem við þurfum að leysa, að tryggja þetta. Það er starfshópur í þessu verkefni. Við kynntum okkur þetta sérstaklega í Danmörku þar sem þau hafa verið að reyna að beita leiðum. Það er engu að síður þannig að það er auðveldara að segja þetta en að framkvæma þetta. Við fylgjumst vel með því sem er að gerast í Danmörku. Síðast þegar ég vissi þá voru þau ekki bjartsýn á árangur þar.

Ég tel því, virðulegur forseti, og held að ég tali fyrir munn meiri hlutans, að stóra verkefnið okkar sé að tryggja umhverfi þessara miðla. Þá er auðvitað ýmislegt sem er þar undir. Það er auðvitað það regluverk sem hið opinbera setur þessum miðlum og það eru skattar og gjöld sem þeir þurfa að uppfylla. Þess vegna hlýtur að vera mjög eðlilegt þegar við veltum fyrir okkur rekstrarumhverfinu að þá horfum við á þessi skilyrði og veltum fyrir okkur: Hvar getum við bætt umhverfið? Eitt af því er í fjölmiðlaumhverfinu. Nú er ég kannski farin að tala bæði um fjölmiðlaumhverfið en ekki síður miðlun íslenskrar menningar og streymisveitur, þ.e. varðandi textun og talsetningu, en þá vegast auðvitað á þau sjónarmið að við viljum halda uppi þessari íslensku tungu okkar og þessu litla málsvæði. Þá er miklu eðlilegra kannski að við horfum til þess að við styrkjum talsetningu og textun. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að gera, enda höfum við verið að styrkja kvikmyndagerð og sjónvarpsþáttagerð og ýmislegt þess háttar. Það væri eðlilegt að það væru öflugar styrkveitingar, líka til þess að þessir miðlar geti uppfyllt þær kröfur sem við setjum á þá, sem eru þá umfram þá miðla sem eru að streyma sínu efni annars staðar frá.

Virðulegur forseti. Það er í mínum huga ekki hægt að tala um umhverfi fjölmiðla öðruvísi en að velta líka fyrir sér veru RÚV á þessum markaði. Þó að fólk kunni að hafa þá pólitísku sýn að það eigi ekki að hreyfa við RÚV eða eigi ekki að breyta RÚV með neinum hætti og þetta sé bara fínt eins og er þá hljóta allir að sjá það, og ég held að það hafi komið skýrt fram í umsögnum og hjá umsagnaraðilum, að auðvitað er RÚV langstærsti aðilinn og auðvitað hefur hann áhrif á þennan markað. Ég er þá bæði að vísa í að hann sé á markaðnum með þá miðla sem hann hefur og svo á auglýsingamarkaðnum. Þess vegna finnst mér mikilvægt, og ég hef heyrt hæstv. ráðherra tala þannig og það er það sem við höfum líka sameinast um í meiri hlutanum og segjum sérstaklega, að við leggjum til að auglýsingadeildin sem slík verði lögð niður á RÚV. Með því erum við ekki að segja að RÚV sé tekið út af auglýsingamarkaði heldur geti fólk þá pantað auglýsingar hjá RÚV í gegnum vefinn. Þetta má segja að sé ákveðin málamiðlun á milli þess að taka RÚV út af auglýsingamarkaði og svo að gera ekkert við þá stöðu sem er í dag.

Það er auðvitað þannig að þetta hefur verið reynt í einhverjum löndum, að ríkismiðlar hafa verið teknir út af auglýsingamarkaði, og fólk er að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á hina miðlana sem eru að selja auglýsingar og fjármagna sig með því. Við höfum alveg dæmi um það, að mig minnir Portúgal og Frakkland þó að ég sé ekki alveg viss, að það hafi ekki sýnt sig að það að taka ríkismiðlana út af markaði hafi haft nein afgerandi áhrif á aðra. Ég held reyndar að ef við hefðum tekið RÚV út af auglýsingamarkaði fyrir 15 árum síðan væri umhverfið kannski svolítið öðruvísi en það er í dag. En með þessari miklu neyslubreytingu og samfélagsmiðlum og öðru þá held ég að auðvitað auglýsi auglýsendur bara þar sem þeir ná í sinn markhóp. Þeir setja ekkert meiri peninga í auglýsingar fyrir þá sem eru að hlusta á Reykjavík síðdegis ef þeim er bannað að auglýsa í þættinum á Rás 2.

Aftur á móti heyrðum við það mjög sterkt frá mörgum einkareknum fjölmiðlum að þeir hjá RÚV væru einfaldlega allt of agressífir á auglýsingamarkaði. Sumir vilja meira að segja meina að þeir brjóti samkeppnislög og annað. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér en það var vísað sérstaklega í að þegar um stóra viðburði væri að ræða, hvort sem það er Eurovision eða heimsmeistaramót í fótbolta eða handbolta eða öðru, þá voru notuð orðin að RÚV þurrkaði út auglýsingamarkaðinn. Það var líka vísað í að áhrifin sem þeir kynnu að hafa þegar um væri að ræða einhvers konar þætti sem tengjast ákveðnum byggðarlögum, ég ætla að nefna hér Útsvar sem dæmi, en þegar þeir þættir voru og hétu, ég er ekki viss um að þeir séu þar enn þá, þá hafi söluaðilar auglýsinga hjá RÚV sótt markvisst á þau svæði og til minni fyrirtækjanna sem þar eru. Það séu oft og tíðum einu auglýsingarnar í þessum litlu héraðsmiðlum þannig að þetta hafi auðvitað haft áhrif. Með þessari tillögu okkar — sem aftur tengist ekki beint því frumvarpi sem hér um ræðir því að það eru auðvitað bara bráðabirgðaákvæði en ég heyri að ráðherra hefur tekið undir þetta. Það breytir alla vega þeirri stöðu að RÚV er þá ekki þessi agressífi söluaðili auglýsinga eins og aðrir hafa kvartað yfir. En aftur: Auglýsendur geta engu að síður komið sínum skilaboðum á framfæri. Þannig að ég held að þetta sé bara mjög góð málamiðlun á þeim sjónarmiðum sem uppi hafa verið í gegnum tíðina.

Þess vegna, virðulegur forseti, vil ég bara ítreka að þegar við tölum um fjölmiðla þá verðum við að hafa heildstæða sýn á þetta umhverfi. Hæstv. ráðherra hefur boðað stefnumörkun á sviði fjölmiðla og ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að við horfum á alla þessa þætti og hættum að taka einn og einn út fyrir sviga eins og við þurftum að gera á sínum tíma þegar við komum með þessa styrki. Það var líka á tímum Covid þannig að við vorum að bregðast við öðru þá. Ég held að það sé tímabært að við horfum á heildarmyndina. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn. Þau nefndarálit sem birt hafa verið hafa alla vega verið samþykk þessu frumvarpi og taka undir margt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans þó að það sé eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um eitthvað. Þannig að ég ætla að leyfa mér að vera smá bjartsýn á að við getum náð árangri og ítreka líka það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, að við erum að horfa á að það þurfi heildstæðar lausnir og við viljum gjarnan að allar aðgerðirnar sem komu fram í margumræddri skýrslu frá 2018 séu skoðaðar.

Það var alla vega sýn mín þegar við tókum þetta frumvarp fyrir að við værum ekki að fara inn í skilyrðin vegna þess að þetta væri bara tímabundin ráðstöfun. Þess vegna eru þessar breytingartillögur sem hér eru. Þó að fólk gæti ímyndað sér að við séum að gera miklar breytingar eru þær kannski fyrst og fremst til komnar vegna þess að ákvæðið féll úr gildi um síðustu áramót. Þess vegna þarf þarna ákveðnar breytingar til að setja það inn aftur. Við erum í rauninni eingöngu að fjalla um að við séum að framlengja þessar styrkveitingar sem hafa verið í einhver tvö ár. Þær breytingar sem eru hér og framsögumaður kom vel inn á voru annars vegar þetta varðandi viðbótarfjármagn til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni — og þá langar mig bara að ítreka að það er einmitt eitt af því sem var tilgreint sérstaklega í þessari umræddu skýrslu. Það virðist vera uppi mikill skilningur á því að héraðsmiðlar eða fjölmiðlar á landsbyggðinni eigi rétt á beinum stuðningi því að það sé mikilvægt, bæði fyrir lýðræðið en ekki síður bara fyrir menningu og fyrir landsbyggðina, að slíkir miðlar séu til staðar. Þá erum við að úthluta þarna 100 millj. kr. viðbótarframlagi sem fjárlaganefnd samþykkti og Alþingi samþykkti hér fyrir síðustu áramót sem átti þá að fara sérstaklega til landsbyggðarinnar og ljósvakamiðla, þannig var það reyndar orðað þar. En staðan er nú með þeim hætti, eins og flestir þekkja, að það er enginn einn ljósvakamiðill lengur starfandi þar þannig að við erum að leggja til að þetta dreifist á þá sem eru á landsbyggðinni.

Að því sögðu erum við með þeirri aðgerð kannski að auka enn frekar á það misræmi sem verið hefur varðandi þá miðla sem eru héraðsfréttamiðlar hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna leggjum við til aðra breytingu sem felur í sér að það lágmark sem hefur verið, að prentmiðlar skuli koma út að lágmarki 20 sinnum á ári, að þegar um er að ræða staðbundna miðla þá þurfi viðkomandi ekki að koma út oftar en 12 sinnum á ári til að vera styrkhæfur og geta sótt í þennan sjóð. Þarna erum við að reyna að koma til móts við ákveðið misræmi sem hefur verið og ég held að það sé mikilvægt að horfa til þess.

Að því sögðu þá finnst mér þetta einmitt sýna svo glöggt að það er alltaf erfitt og flókið að deila fé úr ríkissjóði því að það þarf að setja einhverjar girðingar. Það þarf að ákveða hverjir eiga rétt og hverjir ekki. Það er alltaf hætta á því að við hér förum með einhverjum hætti að stýra þessum aðilum úti, hvernig þeir ætla að reka sinn miðil. Ætla þeir að vera með hann í áskrift eða ekki, ætla þeir að prenta hann eða ekki, ætla þeir að koma út 20 sinnum á ári eða tíu sinnum á ári og so videre? Það er svo augljóst vandamál sem uppi er þegar við erum að fara þessar leiðir.

Þess vegna segi ég að mín afstaða er að ég vil að við skoðum til hlítar þær leiðir sem felast í því að veita óbeina styrki í gegnum skattkerfið. Það hafa ýmsar hugmyndir komið fram í því. Ef ég man rétt talaði hæstv. ráðherra líka á þeim nótum fyrst. En auðvitað hafa þá komið rökin á móti, að við viljum hafa sem einfaldast skattkerfi og allar slíkar ívilnanir séu til að flækja það. Ég held að við eigum að gera aðra atrennu að því og ég held við höfum ágætis fyrirmyndir, annars vegar varðandi bókaútgáfuna og svo auðvitað kvikmynda- og menningarframleiðslu ýmiss konar.

Ég held að við séum á góðri vegferð og ég fagna því mjög hvað virðist vera mikill stuðningur við þetta mál hér og æski þess að við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum eiga gott samstarf á næsta þingi og klára þá það sem upp á vantar, þ.e. heildarmyndina, þegar hæstv. ráðherra kemur fram með stefnu sína um fjölmiðlaumhverfið.