Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið og vil kannski bæta við það sem ég sagði hérna áðan, einmitt í tengslum við það sem hv. þingmaður er að koma inn á núna, hvernig hv. þingmaður myndi horfa til þess, eins og þegar við hv. þingmaður höfum verið í kosningaeftirliti, þegar um styrkveitingar til fjölmiðla er að ræða og við vitum að ráðandi öfl, einhverjir einræðisherrar, hafa oft unnið með það að styrkja ákveðna fjölmiðla umfram aðra eða nýta sér ríkisfjölmiðilinn. Einmitt á þessum grunni, út frá lýðræðinu, held ég að það sé mjög mikilvægt að það sé fyrirsjáanlegt kerfi sem tekur á styrkveitingum til fjölmiðla eða stuðningi við fjölmiðla og ég tel að það sé eðlilegra í gegnum skattkerfið heldur en með beinum styrkjum.

En að því sem hv. þingmaður kom að þegar hún vísar í ofsóknir gegn fjölmiðlum sem er risastórt mál í heiminum og við erum að horfa fram á og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel og hefur sinnt störfum sínum hjá Evrópuráðinu mjög vel hvað þetta varðar. Við eigum alltaf að standa upp gegn slíku. Þá langar mig einmitt að benda á að eitthvað sem ég held að við þyrftum að skoða sérstaklega er aukinn stuðningur til rannsóknarblaðamennsku. Þá gætum við horft á það bara í svona samkeppnissjóðafyrirkomulagi.

Hv. þingmaður tekur tvö mál sem hafa verið hér í umræðunni og ég veit að hv. þingmaður og félagar hennar hjá Pírötum hafa bent á. Annars vegar er um að ræða lögbann og hins vegar þetta Samherjamál. Þá ætla ég að segja að ég held nefnilega að það sé mjög hættulegt lýðræðinu þegar stjórnmálamenn stíga inn í umræður og regluverk sem við höfum búið til. Nú var lögbannið ekki á borði ráðherra eða þingmanna, og ætti ekki að vera það, heldur hjá fulltrúum sem eiga að fylgja þeim lögum sem hér eru. Og ef eitthvert fyrirtæki úti í bæ, eins og ég held að ég muni nú rétt í þessu svokallaða lögbannsmáli, fer fram á lögbann á forsendum og sýslumaður metur það sem svo að það hafi verið rétt (Forseti hringir.) þá held ég að við hér inni hljótum að þurfa að treysta þeim sem eru að vinna eftir lögunum sem við hér setjum.

Hvað hitt málið (Forseti hringir.) varðar þá ætla ég bara að segja það að ef við teljum að lögreglan sé að beita lögum með öðrum hætti (Forseti hringir.) en löggjafinn ætlaðist til þá breytum við lögunum, þá skýrum við lögin frekar. Við blöndum okkur ekki inn í lögreglurannsóknir eða dómsmál (Forseti hringir.) eða annað þess háttar. (ÞSÆ: Þú mátt segja formanninum þínum það.)

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka að ræðutíminn er tvær mínútur, ekki 2,35.)