Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því að við erum að ræða hæstv. fjármálaráðherra og út frá þessum skoðunum hv. þingmanns, sérstaklega talandi um rannsóknir sem eru á frumstigi og þegar lögreglan er að fara eftir lögum — nú er ég á þeirri skoðun að lögreglan sé ekki að fara eftir lögum þegar hún setur þessa fjóra blaðamenn í stöðu sakbornings fyrir það að flytja fréttir. Mér finnst staðreyndir málsins eiginlega mjög skýrar hvað það varðar. En tökum það út fyrir sviga. Mögulega er hv. þingmaður alls ekki sammála mér um að það liggi allt fyrir í þessu máli og að það sé algerlega augljóst að þarna sé verið að refsa þessum blaðamönnum fyrir að hafa flutt þessar fréttir og það sé verið að nota til þess ákvæði sem er mjög skýrt að eigi ekki við um vinnu blaðamanna. Segjum sem svo að við séum bara ósammála og þar af leiðandi sé þetta á frumstigi og engin ástæða til að hafa skoðun á því. Þá situr eftir sú staðreynd að formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fjármálaráðherra hefur stigið mjög fast inn í þetta mál og hefur lýst mjög sterkum skoðunum á rannsókn lögreglunnar. Þótt sú skoðun sé á þveröfugum meiði við mína eigin þá er samt sem áður verið að lýsa yfir mjög sterkri skoðun á þessu máli. Þannig að ég verð þá að biðja hv. þingmann um að fara með þessa skoðun sína til formanns Sjálfstæðisflokksins vegna þess að hann er vissulega með skoðanir á þessu máli og hefur auglýst þær mjög opinberlega, endurtekið.

Ég held að það sé okkar hlutverk að hafa skoðun á vinnu lögreglunnar og verklagi hennar ef við teljum að hún sé ekki í samræmi við þau lög og þær reglur sem við höfum sett. Ég tel að það sé okkar hlutverk sem löggjafa með eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Við erum hins vegar ekki fara að stýra rannsókn lögreglu eða lýsa því hvernig lögreglan á að vinna sína vinnu. En þegar lögreglan er augljóslega ekki að fara rétt að þá finnst mér að við sem eftirlitsaðilar með framkvæmdarvaldinu eigum auðvitað (Forseti hringir.) að láta í okkur heyra, sér í lagi þegar það snýr að fjölmiðlafrelsi, þegar það snýr að kælingaráhrifum á lýðræðislega og frjálsa umræðu í þessu landi.