Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætlaði upphaflega að koma hérna upp og segja bara örfáar setningar og kannski í grófum dráttum taka undir að mestu leyti minnihlutaálit 1. minni hluta frá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Þó að ég myndi kannski orða hlutina á ólíkan hátt og er þess vegna ekki með á því álíti þá tek ég undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Eftir að hafa hlustað á umræður hér í dag hefur þessi ræða mín reyndar lengst dálítið þannig að þetta verða eitthvað meira en þrjár setningarnar sem ég ætlaði mér í upphafi.

Mig langar til að byrja á að nefna það sem mér finnst vert að koma á framfæri í ljósi málsins eins og það er lagt fram og í ljósi nefndarálits meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem ég tel vera í ákveðinni mótsögn. Í fyrsta lagi, eins og kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér áðan, lúta þær umsagnir sem okkur í nefndinni bárust um þetta mál ekki eingöngu að efni þessa frumvarps, þær lúta að því að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi er orðið óbærilegt. Hvað þýðir það? Það þýðir að þeir berjast svo í bökkum að þeim fer hraðfækkandi, eins og við höfum öll orðið vitni að. Það er því fyrir löngu orðið ljóst að leggjast þarf í róttækar aðgerðir til að tryggja rekstrargrundvöll fjölmiðla. Þetta hefðum við átt að sjá fyrir löngu síðan, vegna þess að þær breytingar sem eru að verða til þess að einkareknir fjölmiðlar eiga erfiðara uppdráttar en áður voru fyrirséðar og fyrirsjáanlegar og við höfum vitað af þeim í langan tíma.

En áfram halda þessar — og ég ætla bara að nota orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur — bráðabirgðaaðgerðir. Það eru þessar styrkveitingar sem við erum að framlengja, það eru styrkir sem eru veittir tímabundið með ákveðnum skilyrðum í kjölfar umsóknar sem er samþykkt eða synjað. Það hefur verið margbent á gallana við þetta fyrirkomulag, sem eru fyrst og fremst þeir að rekstrargrundvöllur fjölmiðla er ekki tryggður nema örskamma stund í senn. Þetta býr til mikið starfsóöryggi hjá fólki sem starfar í blaðamannastéttinni, enda hefur því farið fækkandi með sláandi hætti á undanförnum árum. Ég er ekki með tölurnar hérna hjá mér en það hefur fækkað svo í stéttinni að það er orðið verulega mikið vandamál. Það er engin tilviljun. Það er ekki vegna þess að fólk vill ekki starfa sem blaðamenn, það er vegna þess að það er ekki starfandi í þessu umhverfi eins og það er orðið. En áfram heldur ríkisstjórnin að tala um bráðabirgðaaðgerðir og framlengir bráðabirgðaaðgerðir. Ég tek undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni sem lýsti áhyggjum af því að við séum að fara að eiga nákvæmlega sama samtal hér að ár liðnu.

Þetta fyrirkomulag er hins vegar, eins og einhverjir umsagnaraðilar hafa bent á, ekki eingöngu gagnslítið til að leysa vanda fjölmiðla á Íslandi og tryggja tilvist þeirra sem er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi — þetta er ekkert smámál — heldur er það að mati sumra jafnvel verra en ekki neitt, jafnvel skaðlegt þar sem það heldur fjölmiðlum í þeim fjötrum að geta bara alltaf séð tekjurnar sínar mjög stutt fram í tímann. Þetta eru líka það litlar fjárhæðir að þær tryggja í sjálfu sér ekki allt. En eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talaði um áðan má líka endalaust deila um skilyrðin sem eru fyrir styrkveitingum og annað.

Svo að ég taki nú aftur undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni hér áðan, margan sem má undra yfir því, kemur þetta frumvarp ekki til af góðu. Það kemur til af því að það er algjört neyðarástand í fjölmiðlaumhverfinu á Íslandi og það gerðist ekkert í gær eða fyrradag. Það neyðarástand var til komið fyrir rúmlega ári síðan þegar forverar þessara laga voru samþykktir og þó lengra aftur væri leitað.

Til þess að finna út hvernig við gætum tryggt rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla á Íslandi fórum við, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom líka inn á hér áðan, í fræðsluferð til Noregs og Danmerkur sem var að mínu mati og ég held reyndar að allir nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar geti verið sammála um að sú ferð hafi verið mjög áhugaverð og mjög gagnleg. Ég veit ekki hvort það hafi endilega komið nefndarmönnum á óvart en það var áberandi hversu umfangsmikið ríkisstyrkjakerfið er í þessum ríkjum. Þetta eru ríki sem við viljum bera okkur saman við. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þetta eru ríki sem eru líkt og Ísland að jafnaði talin standa sig ágætlega í því að standa vörð um grundvöll lýðræðisins og réttarríkisins þó að sannarlega sé aðeins farið að halla undan fæti hjá okkur á undanförnum árum. Það eru þessi lönd sem við viljum taka okkur til fyrirmyndar.

En hvað gerir ríkisstjórnin? Við förum og við sjáum allt sem þau eru að gera, alla góðu hlutina sem þau eru að gera, þau góðu kerfi sem þau eru búin að byggja upp en, nei, við sjáum ekki lausnina í því sem þau eru að gera. Við höldum áfram að spyrja spurninganna sem þau eru búin að svara. Þetta var mín upplifun að mörgu leyti af þessari ferð. Ég skil ekki enn þá þessa þrjóskuandstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mér heyrist reyndar að þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn Framsóknarflokksins séu núna búin að taka upp, þá stefnu að ríkisstyrkir, beinir styrkir til fjölmiðla, séu í eðli sínu óæskilegir. Það er sannarlega áhugaverð lína í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, líkt og ég held að sé orðið glöggt af þessari umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag. Ég held að það hafi ekki komið manneskja hérna upp í pontu sem þessi setning hefur ekki vakið athyglina hjá, setning sem lýtur að því að það sé stefna meiri hlutans að hverfa frá beinum styrkjum til fjölmiðla. Mér finnst ég ekki enn hafa fengið skýr svör við því hvers vegna það er svona mikilvægt.

Ég er sammála hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og fleirum um að það sé engin töfralausn fólgin í því að veita ríkisstyrki, enda er enginn að leggja það til. Það eru margir þættir sem þurfa að koma til til þess að tryggja rekstrarumhverfi fjölmiðla. Fjölmargir þættir hafa verið nefndir sem ríkisstjórnin er þó ekki reiðubúin að taka af skarið um, varðandi t.d. skattafslátt og annað. Ég veit, þó að það sé ekki farið mörgum orðum um það í nefndaráliti meiri hlutans, að þegar þeir tala um að fjölmiðlar eigi að geta aukið sína tekjumöguleika þá er samt ekkert verið að nefna styrki, það er verið að tala um auglýsingatekjur sem fjölmiðlum eru óheimilar í dag m.a. En við vitum það, ég held að það sé ljóst, ég held að það ætti öllum að vera það ljóst og þar á meðal hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og fleiri þingmönnum meiri hlutans, að ef tíu milljóna samfélag eða sex milljóna samfélag getur ekki haldið uppi einkareknum fjölmiðlum og almennilegu, eðlilegu, lýðræðislegu fjölmiðlaumhverfi án þess að hafa einnig beina ríkisstyrki til fjölmiðla, ekki eingöngu, þá veit ég ekki hvernig við eigum að geta gert það í því litla samfélagi sem við erum.

Þá koma aftur inn sjónarmið sem hafa verið nefnd í þessari umræðu líka varðandi mikilvægi þess að standa vörð um tungumálið. Það er líka hlutverk fjölmiðla. Það er enn önnur ástæða fyrir því að ég átta mig ekki á því hvers vegna beinir ríkisstyrkir til fjölmiðla eru svona ægilega hræðilegir nema það sé eitthvert prinsipp, sem ég held að komi úr búðum ungra Sjálfstæðismanna eða eitthvað slíkt, sem virðist núna vera orðið að einhverri gullinni reglu þó að allir séu búnir að gleyma hvers vegna. Ég alla vega skil það ekki enn þá þó að ég sé tvisvar í dag búin að kalla eftir svörum við því hvers vegna það þyki ekki æskilegt. Eina svarið sem mér þótti að einhverju leyti skiljanlegt var að það geri fjölmiðla háða stjórnvöldum sem þeim sé samt sem áður ætlað að gagnrýna. Það er hins vegar leyst með því að styrkjakerfin séu fyrirsjáanleg, þau séu varanleg, að kerfið sé ekki þannig upp byggt að það sé hægt að kippa rekstrargrundvellinum undan fjölmiðli ef hann hagar sér illa. Enda eru Norðurlöndin, þar á meðal Noregur og Danmörk, búin að finna ákveðnar lausnir. Það er kannski ekki búið að finna töfralausn á öllu, enda þurfum við svo sem ekkert á því að halda, við þurfum bara einhverjar lausnir. Þau eru búin að finna lausnir á þessum vandamálum. Þetta er ekki eitthvað nýtt. Þetta er ekkert að koma hér upp í fyrsta skipti. Stundum finnst manni, og ég vil segja það í fleiri málum hér, eins og við hér á Íslandi séum að upplifa vandamálin fyrst allra ríkja í heiminum. Svo er ekki. Ég ætla bara að lýsa yfir vonbrigðum yfir því að ekki skuli hafa verið meira horft til þess sem er að gerast í Noregi og Danmörku og það kannski aðlagað því sem við stöndum frammi fyrir frekar en að halda áfram í þessari þrjósku og breiða út til annarra flokka það fagnaðarerindi að ríkisstyrkir séu af hinu illa. Þetta svar, að það geri fjölmiðla háða stjórnvöldum, hljómar líka skringilega í ljósi þess, líkt og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á í ræðu sinni hér áðan, að það eru fjölmargir aðilar sem lifa á ríkisstyrkjum en hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald. Það er því alltaf ákveðið jafnvægi sem getur verið áskorun að ná en það er ekkert ómögulegt og þetta er ekkert endilega vandamál í sjálfu sér. Ég bíð því enn þá eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna það er svona hræðilegt að vera með beina ríkisstyrki, nema bara vegna þess að ríkisstyrkir séu hræðilegir.

Mig langar til að koma aðeins inn á það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Ég náði ekki að koma því fyrir í andsvari mínu til hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér áðan en ætla að freista þess að varpa fram þeirri spurningu til hennar núna og sjá hvort hún hafi áhuga á því að svara mér í andsvari þó að það sé nú pínulítið öfugsnúið. Það er varðandi það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr því, með leyfi forseta:

„Með 1. gr. frumvarpsins er markmið stuðnings við einkarekna fjölmiðla undirstrikað, þ.e. að styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla með fyrirsjáanlegu stuðningskerfi. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur áherslu á mikilvægi lýðræðishlutverks fjölmiðla.“

Þarna ætla ég aðeins að staldra við og vekja athygli á því að þessi setning er í beinu samræmi við það sem kemur fram í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þar sem segir — þetta reyndar er tilvitnun upp úr nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að ríkisstjórnin ætli sér að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla og styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla. Því telur meiri hlutinn mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla, en leitist við að gera það með óbeinum hætti, svo sem með því að fjölga tekjuöflunarmöguleikum þeirra eða með skattalegum ívilnunum. Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Mótsögnin sem mig langar til að benda á er að í 1. gr. frumvarpsins er beinlínis vísað til 62. gr. laganna sem fjallar um beina ríkisstyrki. Með orðalaginu sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, þegar talað er um stuðning við einkarekna fjölmiðla og að styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla með fyrirsjáanlegu stuðningskerfi, er því verið að tala um styrki, beina styrki. Þannig er 1. gr. með tilvísun í lögunum. Hins vegar er — og ég ætla að leyfa mér með öllum venjulegum fyrirvörum að nota það orðalag — snúið út úr þessu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem lítið er gert úr því að verið sé að tala um beina styrki og í rauninni talað um — það er greinilegt að þetta orðalag, „efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla og styrkja lýðræðishlutverk“, er hægt að túlka á ýmsa vegu. Mótsögnin er í því að vísa í og fagna og ítreka 1. gr. sem vísar í beina styrki, hún er að tala um beina styrki, það er alveg skýrt að þessum lögum, og síðan að þetta sé í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Ég ætla því að fá að beina þeirri spurningu til hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem ég náði ekki að beina til hennar hérna rétt áðan: Telur hún að þegar stjórnarsáttmálinn var gerður — og kannski get ég bara spurt hana beint: Var það að hennar vitund sameiginlegur skilningur allra þessara flokka að það væri bara alls ekki verið að tala um beina styrki? Þetta er bara forvitnisspurning frá mér vegna þess að þegar ég les þetta og les það í samhengi við þessar greinar frumvarpsins þar sem er verið að tala um beina styrki þá upplifi ég þetta, og ég segi það með fullri virðingu, sem útúrsnúning. Að mínu mati er nefndarálit meiri hlutans því í beinni hugmyndafræðilegri mótsögn við frumvarpið sem hér er um að ræða. Og eins og nefnt hefur verið í fjölmiðlum virðist sem það hafi einhvern veginn gerst í meðförum þessa máls að Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi tekið upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Ég geri nú ráð fyrir að hv. þingmaður fagni því ef svo er. Ég hlakka samt til að heyra svör hennar við spurningu minni sem er borin hér upp mjög einlægt og af mikilli forvitni.

Ég er alveg að renna út á tíma, megi engan undra, en mig langar aðeins að nefna það sem ég var svo sem búin að koma inn á hérna áðan, að umsagnirnar eru nánast samhljóða um að það þurfi styrkjakerfi í einhvers konar formi, en það var skilningur okkar líka í þessari fræðsluferð til Noregs og Danmerkur, og að núverandi fyrirkomulag sé jafnvel verra en ekkert. Þá spyr maður aftur og ég spurði hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um það hérna áðan en svörin voru svo sem ekki önnur en þau að hún væri sammála mér að hafa áhyggjur af þessu: Hvers vegna er ríkisstjórnin ekki búin að koma með aðrar lausnir fyrst beinir styrkir eru ekki taldir rétta lausnin? En það er sennilega hægt að kenna einhverjum öðrum um það.

Mig langar til þess að tæpa örstutt á því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi í ræðu sinni áðan varðandi það að þegar við setjum ákveðin skilyrði fyrir því að fjölmiðlar fái styrki séum við einhvern veginn að stýra vinnu þeirra. Ég verð bara að lýsa mig ósammála þessu. Ég held að þetta sé alls ekki það sem er ætlað með þessum skilyrðum fyrir styrkveitingum. Ég veit að t.d. að í einhverjum hinna Norðurlandanna eru skilyrði fyrir ríkisstyrk að fjölmiðlar rukki sjálfir áskriftargjöld. Þetta gengur auðvitað út á það að reyna að tryggja að það sé einhver dreifing hjá viðkomandi fjölmiðli og það ríki einhvers konar lágmarkstraust í samfélaginu til þess fjölmiðils. Það hljómaði í mín eyru sem ágætisleið, ekki kannski fullkomin, til að afmarka það. Ég veit ekki hvort Bændablaðið og Fótbolti.net séu endilega svo ónauðsynlegir fjölmiðlar í lýðræðislegu samfélagi að þeir séu góð dæmi um að þetta styrkjakerfi sé hin tómasta vitleysa vegna þess að við eigum ekki að vera styrkja þvílíka fásinnu. Ég er á því að fjölbreytileiki fjölmiðla sé bara af hinu góða. Það sem við getum lært af hinum Norðurlöndunum er m.a. hvaða skilyrði eru gagnleg og hver eru það ekki.

Örstutt í lokin — komið að stóra málinu, máli málanna sem er ógn við frjálsa fjölmiðla á Íslandi og eftirlit með stjórnvöldum. Það hefur lengi verið mér hugleikið hvers vegna sumir þingmenn meiri hlutans eiga erfitt með að skilja eftirlitshlutverk Alþingis. Ég held reyndar að það hafi svolítið kristallast í orðum hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér rétt áðan — nú er nafn hv. þingmanns orðið stærst í orðaskýinu í þessari ræðu minni, held ég — og það er þegar hv. þingmaður talar um að afskipti ráðherra eða þingmanna séu óeðlileg af t.d. rannsókn sem er í gangi eða framkvæmd stjórnvalda að öðru leyti þegar við framkvæmum þau lög sem við setjum. Ég held að þarna liggi tregðan til að átta sig á mikilvægi eftirlitshlutverks Alþingis. Það er vegna þess að ég held — og ég segi þetta líka í fullri einlægni — að þingmenn meiri hlutans eigi það til að rugla saman meiri hluta á þingi og ríkisstjórn og jafnvel líta svo á — og ég hef sagt í fleira samhengi en hér að þetta sé alvarlegt mál og ég hvet hv. þingmenn meiri hlutans til að taka þessar áhyggjur alvarlega — að þingið sé einhvers konar þjónn við ríkisstjórnina sem meiri hlutinn er búinn að velja. Það kemur m.a. út í því að við hér á þingi eigum ekki að vera að skipta okkur af því sem ríkisstjórnin er að gera. Við eigum þá bara að breyta lögunum ef þau eru ekki í lagi. Þetta er hins vegar hreinlega ekki í samræmi við hlutverk Alþingis eins og það er skilgreint í okkar stjórnskipan. Alþingi gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki við að hafa eftirlit með störfum stjórnvalda til viðbótar við dómstóla, til viðbótar við umboðsmann Alþingis, til viðbótar við Ríkisendurskoðun. Það eru fjölmargir aðilar sem eiga að tryggja að löggjöfinni sé framfylgt í samræmi við það sem Alþingi ætlaði sér og í samræmi við — sem ég er viss um meiri hlutanum finnst því miður ekki skipta nógu miklu máli að mínu mati — stjórnarskrána. Við erum með stjórnarskrá sem á að vera grundvöllur allrar löggjafar en hún er mjög lítilsvirt í löggjafarvinnunni og að mínu mati eykur það á mikilvægi eftirlitshlutverks Alþingis þegar löggjöf fer hérna í gegn án þess að það sé búið að kanna gildi við stjórnarskrá og annað.

Allir þessir þættir gera það að verkum að okkur ber — það er ekki bara það að okkur sé heimilt (Forseti hringir.) að hafa afskipti af því hvernig stjórnvöld eru að framkvæma lög sem við setjum, (Forseti hringir.) okkur ber að gera það. Það er hluti af okkar hlutverki. Ég gæti talað um þetta ansi lengi en er því miður búin með ræðutímann.