Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en farið upp í andsvar við hv. þingmann þar sem hann óskaði svo einlæglega eftir því. Mig langar að segja það fyrst að þegar Píratar komu fyrst fram — nú ætla ég að halda áfram að vera einlæg eins og hv. þingmaður var — þá var ég svolítið skotin í hugmyndafræðinni. Mér fannst þetta nefnilega vera flokkur sem var svolítið að brjóta þetta hefðbundna regluverk hægri/vinstri og taka svolítið niður kerfið. En það hafa orðið mikil vonbrigði að finna svo hvað Píratar eru kerfislægur flokkur. Mér fannst hv. þingmaður koma ágætlega inn á það þegar hún hefur engan skilning á því, sem ég þó hef ítrekað hér, bæði í ræðum og andsvörum, af hverju ég vil frekar sjá fyrirsjáanlegt stuðningsumhverfi í gegnum skattkerfi heldur en í styrkveitingum, beinum styrkjum út úr ríkissjóði.

Þá langar mig bara að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður t.d. að Fótbolti.net sé mjög mikilvægur fyrir lýðræðið á Íslandi? Telur hv. þingmaður að hið opinbera sé þar að gera rétt í því að taka fé úr ríkissjóði og veita út til aðila? Þetta er ein spurning sem við sitjum auðvitað uppi með þegar við erum að fjalla um að við ætlum að deila fé út úr ríkissjóði. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði hérna áðan, að þess vegna held ég að það sé mikilvægt að hafa fyrirsjáanlegt kerfi sem tekur á öllum þáttum rekstrarumhverfisins. Þá er auðvitað líka staða ríkisfjölmiðilsins alveg ofboðslega mikilvæg. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því og ætla bara að tala um einhverja styrki og einhver regluverk í kringum það sem eina púslið í stóru myndinni. Það er bara ekki hægt. Auk þess sem ég benti á hérna áðan, að við erum að fara að hafa skoðun á því hvort aðilar sem ákveða að reka fjölmiðil eiga að gefa út á prenti, gefa út 20 sinnum, 15 sinnum eða tíu sinnum, hvort þeir eigi að gefa út frítt eða í áskrift. Allir þessir þættir — er ég að segja við hv. þingmann að ég haldi að við megum ekki hafa skoðun á. Við eigum að búa til umhverfi sem gerir það (Forseti hringir.) að verkum að þeir sem vilja starfa á vettvangi fjölmiðla geti gert það vegna þess að umhverfið er þannig að það er hægt, án þess að þingmenn eða ráðherrar (Forseti hringir.) séu að ákveða hvernig eigi að reka fjölmiðla.