Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni og gott að hún minnti mig á spurninguna sem var hvort það hefði verið sameiginlegur skilningur hjá öllum stjórnarliðum, þær setningar sem settar eru í stjórnarsáttmála. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir alla en setningin er mjög skýr; það er markmið þessarar ríkisstjórnar að styrkja rekstrargrundvöll og rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla vegna þess að við erum öll sammála um mikilvægi þeirra. Það var upphaflega þannig að verið var að reyna að fara einmitt inn í skattkerfið. Svo segir hv. þingmaður: Það er ekkert hérna um þetta. Já, þetta er það frumvarp sem við erum að fjalla um núna, það er framlenging á þessu. Þannig að það er svo sem alveg eðlilegt að í því séu ekki aðrar lausnir en nákvæmlega það sem þar er.

En ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að við þurfum að komast lengra. Og það er það sem hæstv. ráðherra hefur boðað. Hún boðaði það reyndar á vorþingi að vera með stefnu í fjölmiðlamálum en því hefur verið seinkað fram á haustþing. Hv. þingmaður þekkir það eins vel og ég að það er auðvitað ýmsum vandkvæðum bundið, m.a. höfum við rætt um skattlagningu á þessum erlendu miðlum, hvort sem það eru samfélagsmiðlarnir sem eru að selja auglýsingar eða hvernig streymisveiturnar geti verið skattlagðir á Íslandi. Þetta er eitthvað sem er mjög auðvelt að segja í texta og var til að mynda ein af tillögunum í margumræddri skýrslu frá 2018 en enn þá vantar okkur tækin og tólin til að útfæra þetta. Ég vona svo sannarlega við séum að færast nær þeirri lausn og þetta er eitt af þeim púslum sem þarf.

Vegna þess að hv. þingmaður kom áðan inn á — og ég var líka í andsvörum við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur áðan varðandi frelsi fjölmiðla — eftirlitshlutverkið þá er ég alveg sammála því að við höfum eftirlitshlutverk. En þá er hv. þingmaður aðeins í annarri stöðu en sú sem hér stendur. Við sem styðjum þessa ríkisstjórn berum auðvitað meiri ábyrgð. Mér þykir margir þingmenn hafa farið hér mjög frjálslega með ákveðin málefni sem annaðhvort hafa verið í rannsókn eða fjölmiðlamenn hafa verið að fjalla um. Blaðamannafélagið hefur ályktað sérstaklega um það og óttast að það sé meiri þrýstingur frá yfirvöldum og fyrirtækjum. Segir hér í ályktun þeirra að á síðustu árum hafi þjóðþingið verið vettvangur harkalegrar gagnrýni á blaðamenn og margir blaðamenn líti á þessi ummæli stjórnmálamanna sem pólitískan þrýsting á störf sín.

Og það er í allar áttir, örugglega. Ég held að við þurfum að komast út úr þessu umhverfi (Forseti hringir.) og tryggja góðan rekstrargrundvöll fyrir frjálsa fjölmiðla.