Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég er glöð að heyra að hv. þingmaður og þingflokkur hans hyggjast styðja þetta frumvarp sem hér liggur fyrir, þ.e. að framlengja þessa styrki sem eru til einkarekinna fjölmiðla. En mig langaði að spyrja hv. þingmann meira út í stefnu Viðreisnar eða hans sýn á þetta. Hann kom reyndar síðar í ræðunni aðeins meira inn á það. Mér finnst ég hafa greint það mjög skýrlega í dag að Samfylkingin og Píratar eru mjög hlynnt því umhverfi sem við höfum þó búið til, þ.e. þessum beinu styrkjum, en það var ekki alveg jafn ljóst hjá hv. þingmanni. Hann tók það reyndar fram síðar í ræðunni að hann væri alveg tilbúinn að skoða þetta varðandi rekstrarumhverfið og skattalegu styrkina. Það var kannski það sem ég hugðist spyrja hv. þingmann að. Eins og við vitum bæði er mismunandi form á þessu á Norðurlöndunum. Í sumum tilfellum eru styrkirnir oft meira og minna hugsaðir til landsbyggðarmiðla eða svæðismiðla en svo er umhverfið líka þannig að það er niðurfelling skatta eða skattalegar endurgreiðslur.

Hv. þingmaður nefndi hér þessar 100 milljónir. Ég sit í fjárlaganefnd og ber ábyrgð á því og ég ætla alveg að gera það. Þó að ég sé kannski ekkert endilega sannfærð um að það hafi verið rétt er þó á það að benda að þar var talað um ljósvakamiðla á landsbyggðinni. Við skulum þá líka muna hvað einmitt hin löndin eru að gera þar sem þau eru þó að reka sérstakan ríkismiðil sem ekki má vera staðsettur í höfuðborginni, einmitt til að tryggja þennan landsbyggðarvinkil.

Þannig að í fyrra andsvari spyr ég hver sé sýn hv. þingmanns og hans þingflokks á það hvernig við byggjum upp þetta stuðningsumhverfi. Sér hann fyrir sér þessa skattalegu nálgun og eru þá einhverjir aðrir þættir sem hafa stundum komið til tals, eins og einhvers konar nýsköpunarsjóðir eða rannsóknarblaðamannasjóðir eða eitthvað slíkt, til að gera þetta starfsumhverfi eftirsóknarverðara?