Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður átti sig nú alveg nákvæmlega á því hvernig refirnir eru skornir í dagskrá þingsins þegar kemur að því að koma málum inn á dagskrá þegar menn eru í stjórnarandstöðu. Það er kannski aðeins annar handleggur. Það þarf því ekkert að velkjast í vafa um vilja okkar til að tala fyrir því í þingmálum og þingræðum að það eigi auðvitað að skoða þetta heildstætt.

Varðandi Ríkisútvarpið: Jú, við komumst auðvitað ekki hjá því og eigum ekki að vera feimin við að skoða allan markaðinn í heild sinni. Ríkisútvarpið er þar stór leikandi. En við festumst svo oft þar. Það hafa margir einmitt verið að benda á það og það er alltaf raunin að við erum einhvern veginn föst þar, mörg hver. Mér finnst stundum fyrirtæki, einkamiðlar tala með þeim hætti að lausnin sé alltaf bara hjá Ríkisútvarpinu. Ég held að vandinn sé fjölþættari en það. Það fer mun meiri peningur auglýsenda á samfélagsmiðla heldur en til Ríkisútvarpsins.

Mér finnst þetta sem lagt er til í nefndarálitinu gagnvart Ríkisútvarpinu vera grundvallarbreyting á starfi Ríkisútvarpsins að því leytinu til að við vitum ekki hvernig tekjur skila sér inn í þessu nýja módeli. Við höfum ekki hugmynd um það. Við höfum ekkert reynt að rýna það. Við höfum ekkert skoðað það. Við höfum ekkert reynt að velta vöngum yfir því hvort tekjurnar myndu fara eitthvað annað, eða þar fram eftir götunum, og hvaða afleiðingar það myndi hafa á reksturinn. Að því leytinu til er þetta grundvallarbreyting.

Ég er hins vegar ekkert að segja að það sé ekki hægt að styðja þessa hugmynd ef hún kemur fram að lokinni einhverri rýni, eins og reyndar er lagt til í setningunni á undan í nefndarálitinu.

Ég lít einhvern veginn svo á að við þurfum að skoða þennan markað mjög heildstætt. Þess vegna höfum við verið að tala fyrir því í ræðu og riti. Ég auðvitað fagna því að það sé verið að gera hér einhverja fjölmiðlastefnu en bendi aftur á það sem ég nefndi í ræðu minni, (Forseti hringir.) að þar hafa til að mynda fjölmiðlar kvartað undan því að ekki hefur verið haft nægilegt samráð, (Forseti hringir.) auk þess sem þessir hópar tveir sem er verið að skoða eru auðvitað hvor um sig með tiltölulega þrönga sýn og ekki með heildarsýnina á markaðnum í huga.