Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er þetta með fyrirsjáanleikann og að þurfa að sækja pening til ráðamanna á hverju einasta ári. Við þekkjum dæmin þar sem ýmis félagasamtök reka upp neyðaróp í kringum afgreiðslu fjárlaga hvert ár vegna þess að það einhvern veginn gleymist alltaf að bæta þeim inn í fjárlagafrumvarpið. Þá getur einhver þingmaður í meiri hlutanum skreytt sig með því að hafa bjargað málunum eða einhver ráðherrann fengið svona borðaklippingartilfinningu með því að hafa græjað þetta. Ég held að þetta sé stundum hvati hjá ráðherrum þegar er verið að búa til svona ófyrirsjáanleg kerfi. Það er hægt að koma sem einhver bjargvættur á hverju einasta ári og deila út ávísunum til þeirra sem þurfa. Auðvitað þarf eitthvert heildarkerfi. Auðvitað þarf eitthvað sem nær utan um stöðu markaðarins, eins og hefur verið ljóst í mörg ár að þarf að taka á. Þá er kannski rétt að minnast á að þetta er náttúrlega bara ein af mörgum tillögum sem komu fram í skýrslu sem var unnin fyrir fjórum eða fimm árum. Þetta er ein af tillögunum og það er enn þá bara verið að framlengja þessa einu tillögu frekar en heildarpakkann sem þurfti til að halda hér heilbrigðum fjölmiðlamarkaði. Ætli Fréttablaðið sé eitt af fórnarlömbum þess hversu langan tíma hefur tekið að bregðast við?

Aftur að þessari setningu vegna þess að ég held að það sé sumpart rétt hjá hv. þingmanni að hún lýsi misskilningi stjórnarliða á hlutverki fjölmiðla eða innræti þeirra sem standa að rekstri fjölmiðla. En ég held að þetta lýsi því líka úr hvaða átt þessi orð koma. Af því að hv. þingmaður nefndi hér Samherja áðan, þær stóru valdablokkir auðmanna sem ráða stórum hluta af fjölmiðlamarkaði og hafa þannig bein afskipti af því hvernig ákveðnir fjölmiðlar tala í ákveðnum málum, þá er það náttúrlega eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn þekkir ágætlega og heldur kannski að allir aðrir hugsi svoleiðis líka. (Forseti hringir.) Þannig koma svona setningar, fólk sem er vant því að í krafti auðs sé hægt að stýra fjölmiðlamarkaði, heldur kannski að við séum öll í þeim pakkanum.