Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Nú er það þannig að við höfum verið með ákveðnar fyrirtækjablokkir og samsteypur sem jafnframt eiga í miðlum og það er auðvitað þannig að einhverjir þurfa að eiga miðlana og stundum sameinast einhverjir hagsmunahópar um það að kaupa miðla. Ég minni á að það var markmið í sjálfu sér þegar útgerðarfyrirtæki keyptu Morgunblaðið að stýra umræðu um tiltekin mál með tilteknum hætti. Það sem ég hef alltaf viljað halda til haga í því er, og nú tala ég ekki bara um Morgunblaðið heldur alla miðla almennt, að við verðum kannski að gera greinarmun á efni sem birtist í ritstjórnarskrifum og síðan hinum beinu fréttum.

Þess vegna er ég alltaf að nefna það líka í þessu samhengi að það sé svo mikilvægt að fjölmiðlarnir séu margir vegna þess að það á þá alltaf einhver og ef einhver er frekur til fjörsins með eignarhald sitt á einum miðli, að þá er eitthvert annað aðhald til annars staðar í samfélaginu hjá fjölmiðlum til þess mögulega að benda á slíkt ef það er í gangi. Það er eiginlega ekki hægt að undirstrika nægilega mikið hvað það er mikilvægt að miðlarnir séu ekki of fáir.

Ég átta mig á því að við búum í litlu samfélagi, það eru takmörk fyrir því hvað við getum gert en ef við myndum t.d. enda uppi með einhverja eina stóra fjölmiðlaveitu og Ríkisútvarpið þá finnst mér það ekki nóg og mér finnst að einingarnar þurfi að vera fleiri. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að ef við erum að búa til einhvers konar umhverfi utan um styrki til fjölmiðla, að við séum að huga að nýsköpun í því. Það er eitt af því sem menn þurfa að hafa svolítið hugann við og gefa þá möguleikann á því að umhverfið þarna úti sé frjórra og það sé kannski auðveldara að fara af stað með einhverjum hætti. En ég er auðvitað þeirrar skoðunar, og kem þá kannski pínulítið úr annarri átt heldur en hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, (Forseti hringir.) að því minna sem ríkisvaldið þarf að skipta sér af með beinum styrkjum eða óbeinum, því betra.(Forseti hringir.) Þetta á ekki að vera markmið í sjálfu sér en fjölmiðlamarkaðurinn er þannig að það þarf að hafa þarna einhver úrræði.