Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald, miðla upplýsingum til almennings og veita vettvang fyrir upplýsta þjóðmálaumræðu. Það er því mikilvægt að við hugum vel að því umhverfi sem fjölmiðlar búa við. Það er hins vegar þannig að við lifum á miklum umbrotatímum þegar kemur að umhverfi fjölmiðla um allan heim. Gömlu stóru prentblöðin eru t.d. hvert á fætur öðru að deyja út um allt, því miður fyrir okkur sem erum gömul, en ungt fólk í dag leitar hreinlega ekki í það að fletta í gegnum blöð til að kynna sér hvað er að gerast. Oftast vegna þess að blöðin eru einmitt í rauninni orðin úrelt þegar búið er að prenta þau, vegna þess að flestallar fréttir sem við fáum í dag koma í gegnum samfélagsmiðla eða aðra miðla í gegnum netið. Meira að segja myndmiðlarnir, sjónvarpsstöðvarnar, eiga líka undir högg að sækja vegna þess að þar hefur orðið mikil bylting og breyting. Í stað þess að þeir séu aðilarnir sem framleiða mest af því sjónvarpsefni sem til er þá eru það sérstakar stafrænar streymisveitur sem gera slíkt. Þetta hefur áhrif alls staðar, ekki bara hér á Íslandi, og það er mikilvægt að við horfum til þessara breytinga og þess sem við sjáum gerast annars staðar í heiminum og reynum að aðlaga okkar umhverfi og okkar lagaumgjörð í þá átt að það sé ekki bara örlítill stuðningur hér og örlítill stuðningur þar, heldur sé það hugsað þannig að þessar breytingar, sem má kannski í rauninni segja að séu að miklu leyti stafræn umbylting sem er að eiga sér stað í fjölmiðlun — að við séum líka að styðja fjölmiðlana í að breytast, styðja þá í því að finna nýju formin til að vera á. Er það endilega enn þá að vera með sjónvarpsfréttir klukkan hálfátta og sjö á kvöldin? Nei, það er ekkert endilega þannig sem þær kynslóðir sem nú eru að leita sér að fréttum og því efni, heldur vilja þær sjá það á sínum eigin tíma og oft á öðru formi heldur en við höfum verið að miðla því hingað til.

Ef við tölum um hluti eins og fréttir þá eru flestir fréttatímar, t.d. ef þú hlustar á útvarpið, komnir niður í tvær til þrjár mínútur. Sjónvarpsfréttir eru oft ekki nema 10, 15, 20 mínútur. Meira að segja er langi fréttatíminn í Ríkisútvarpinu í hádeginu og á kvöldin er stundum kominn niður í 10 mínútur. Svo tekur reyndar fréttaþátturinn Spegillinn við á kvöldin en þetta er orðið miklu styttra en þegar ég var alast upp. Ég veit það því að ég tók alltaf tímann hvað fréttirnar voru langar þá vegna þess að, eins og segir í laginu, með leyfi forseta: „Mér er sagt að þegja meðan fréttatíminn er.“

Við þurfum því að horfa til þess að við getum ekki hjálpað þessum miðlum að lifa af með því að halda áfram að gera það sama. Það mun bara þýða meiri og meiri styrki vegna þess að það að gera það sama og vera ekki með þessa stafrænu umbyltingu í huganum verður einfaldlega vonlaus leikur.

Við þurfum líka að átta okkur á því að það sem við kölluðum fjölmiðil fyrir nokkrum árum síðan hefur breyst. Í dag getur þú á tíu mínútum búið til nýja vefsíðu, kallað hana Píratafréttir eða eitthvað, og svo ef þú skráir þig hjá fjölmiðlanefnd þá ertu bara skilgreindur sem fjölmiðill. Meira að segja ef þú heldur úti hlaðvarpi þar sem þú ert kannski að fjalla um drauga í íslenskum húsum þá er það skilgreint núorðið sem fjölmiðill. Þetta þurfum við að hugsa betur. Við þurfum að vera með fjölbreyttari skilgreiningar á þessu. En það sem er kannski það hættulegasta í þessu öllu saman er að eitt af því sem við höfum séð breytast á undanförnum árum er svokölluð upplýsingaóreiða. Það er því miður þannig að það eru fjölmiðlar úti um allan heim en líka hér á landi sem stunda upplýsingaóreiðu, taka upp upplýsingaóreiðufréttir annars staðar frá, þýða þær yfir á íslensku og kalla sig fjölmiðil.

Við þurfum að hafa það í huga þegar við erum að styrkja aðila að við séum að styrkja þá sem veita réttar upplýsingar til fólks. Þá á ég ekki við pólitískt réttar heldur hreinlega að þeir séu ekki að búa til misvísandi hluti viljandi, við þurfum að passa hvort við styðjum þá. Allt eru þetta hlutir sem við þurfum að hugsa um nú en þurftum kannski ekki að hugsa um fyrir 10–15 árum síðan vegna þess að þá var miklu minna um þessa upplýsingaóreiðu. Það var miklu erfiðara að koma henni áfram.

Við höfum líka séð margt breytast. Þegar ég var að alast upp voru flestir prentmiðlarnir, sem voru þó nokkrir á þeim tíma, reknir af pólitísku flokkunum og voru pólitísk málgögn kannski miklu frekar en fréttamiðlar. Það er eitthvað sem hefur líka breyst. Það sem við þurfum líka að tryggja er það starfsumhverfi sem við búum til fyrir fjölmiðlafólkið. Það má ekki vera þannig að fréttirnar verði bara um það hver mætti í hvaða kjól eða hverjir voru að gifta sig eða hverjir voru að byrja með hvor öðrum — ég veit að sumum hv. þingmönnum þykja þetta mjög áhugaverðar fréttir — heldur verðum við líka að hafa fréttir þar sem við erum að fara djúpt ofan í málin. Fréttamenn sem spyrja erfiðu spurninganna, fréttamenn sem leyfa okkur stjórnmálamönnum og öðrum ekkert að komast upp með eitthvert bla, bla, bla. Ég hef oft horft til fréttamanna í Bretlandi sem eru óhræddir við að segja hreinlega við stjórnmálamenn: Þú svaraðir ekki spurningunni, ætlar þú ekki að svara henni? Á endanum annaðhvort svara stjórnmálamennirnir eða bara hreinlega viðurkenna að þeir geta ekki svarað vegna þess að ef þeir gerðu það þá myndu þeir ekki geta látið sjá sig meira niðri á þingi. Við þurfum þetta vegna þess að við þurfum þetta aðhald. Það þýðir líka að ef það kemur upp að einhverjir fréttamenn finni eitthvað, finni fréttir um einhverja spillingu eða eitthvað sem er ekki að gerast rétt í okkar samfélagi, þá megum við ekki hrekja þá í burtu fyrir það að hafa verið tilbúnir til að segja frá, heldur eigum við miklu frekar að þakka þeim fyrir að vekja athygli okkar á þessum hlutum sem betur geta farið. Ekki gerum við það í dag.

Það er mikilvægt að í hvert skipti sem við erum að breyta reglum og lögum um fjölmiðla, að við séum að passa upp á að fara í rétta átt. Þó svo að þessi breyting á lögum sé, ef ég man rétt, einungis til örfárra ára, vegna þess að hún þarf að vera tímabundin vegna EES/EFTA, þá þurfa allir flokkar að fara saman og ræða það alvarlega hvernig tryggja megi framtíð fjölmiðla á Íslandi. Það má ekki vera þannig að það sé bara einhver einn flokkur eða tveir sem taka þær ákvarðanir vegna þess að þetta er grundvallarstoð í lýðræðinu.

Svo komum við að spurningunni um fjármögnun á þessu: Hvernig eigum við að fjármagna þennan stuðning? Það er alveg á hreinu að það módel sem virkaði fyrir tíu eða jafnvel fimm árum, sem að miklu leyti var sama módel og var byggt upp fyrir fjölmiðla fyrir 100 árum síðan á auglýsinga- og áskriftartekjum, er að breytast og er búið að breytast. Við þurfum að hugsa um það hvernig við getum aðstoðað fjölmiðla við að fara inn í önnur viðskiptamódel og við þurfum líka að tryggja það að við séum að fá skatt af auglýsingatekjum af efni sem erlendir miðlar eru að sýna hér á landi. Við þurfum að fá okkar hlut. Það á við hvort sem við erum að tala um einhverja streymisveitur eða margt annað.

Við þurfum alltaf að tryggja að þó svo að einhver streymisveita sé sett upp eins og ég veit að tíðkaðist hér fyrir nokkrum árum síðan, þegar tæknifyrirtækin voru að setja Evrópuhöfuðstöðvar sínar á fót annaðhvort á Írlandi eða í Lúxemborg af því að þar voru lægstu skattarnir — svo var módelið sett þannig upp að þú keyptir aldrei neitt í landinu þínu heldur alltaf í gegnum Írland eða Lúxemborg og þá voru skattarnir borgaðir þar. Þetta er að breytast vegna þess að lönd eru búin að sparka nógu fast í þessi fyrirtæki og fá þau til að borga skattana þar sem þeir eiga að borgast.

Þarna þurfum við að passa að við séum að fá nægt fjármagn inn í formi skatta og annarra leiða til þess að geta stutt við það að búa til íslenskt menningarefni, búa til íslenskar fréttir og margt annað. Þetta þurfum við að hugsa og það þarf að leggja djúpa vinnu í þetta. Hún þarf að vera mjög framsýn vegna þess að þarna erum við í umhverfi þar sem þessi stafræna umbyltingin er á fullri ferð. Það þýðir ekkert að líta í baksýnisspegilinn og segja: Já, en við gerðum þetta svona. Við verðum að líta fram á við, kannski að setja upp þrívíddargleraugun, og fara í þá erfiðu vinnu að finna nýjar leiðir til þess að styðja við fjölmiðla á Íslandi, vegna þess að, eins og ég held að komi fram í nokkrum nefndarálitum, það að við séum með fjölmiðla sem eru að miðla efni á íslenskri tungu er krítískt fyrir framtíð íslenskunnar. Þar gengur ekki bara að benda á einhverja framtíðartalgervla og aðrar lausnir sem geta þýtt. Það er ekki lausn sem virkar í dag. Við höfum jú öll fengið Google-þýddu bréfin frá þeim sem eru að reyna að ná í pening frá okkur og við vitum að það er ekki nógu gott. Þannig að allt þetta þurfum við að skoða og vinna saman. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur þingmenn að virkilega leggja okkur fram við þetta og gera það í sameiningu vegna þess að ef við vinnum ekki saman að þessu munum við tapa fyrir erlendum fjölmiðlum og íslenskan mun tapa og það viljum við aldrei að gerist.