Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hélt að hann myndi spyrja mig um stefnu Vinstri grænna í þessum málum, svona miðað við ræðuna áðan. En varðandi upplýsingaóreiðuna þá er mjög mikilvægt að gera greinarmun á ritskoðun annars vegar og því að stemma stigu við upplýsingaóreiðu. Þetta eru nefnilega tveir hlutir sem þarf að horfa vel á. Í öðru tilvikinu ertu vísvitandi að breiða út upplýsingar sem þú veist að eru rangar. Það er mjög athyglisvert, en allt of langt að fjalla um það hér í andsvari, að hlusta á helstu sérfræðinga heims í upplýsingaóreiðu fjalla um það hvernig t.d. þetta er byggt upp. Það var t.d. áhugaverð lesning um það hvernig Rússar voru í marga mánuði á undan innrásinni í Úkraínu búnir að vinna í því að setja inn upplýsingar út um allt til að réttlæta stríðið. Svo þegar stríðið hófst þá notuðu þeir samfélagsmiðlana til að vísa til baka á rangar upplýsingar sem er síðan verið að dreifa út um allt. Eins og ég segi er þetta allt of langt til að fara í hér í tveggja mínútna andsvari, en það er munur á ritskoðun annars vegar og upplýsingaóreiðu hins vegar.